Þjónusta í Þingeyjarsýslum

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins árið 2008. Hlutverk hans er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests eða varanlegrar örorku, með aukinni virkni, starfsendurhæfingu, markvissum stuðningi og öðrum úrræðum.

Með samvinnu Framsýnar stéttarfélags, Starfsmannafélags Húsavíkur, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar (og annarra stéttarfélaga) og Virk – starfsendurhæfingarsjóðs, var ákveðið að ráðgjafi á sviði starfsendurhæfingar starfaði í Þingeyjarsýslum, með aðsetur á skrifstofu Framsýnar á Húsavík.

Þjónusta við einstaklinga

Ef starfsgeta er skert býður Virk – starfsendurhæfingarsjóður persónulega þjónustu og stuðning. Þjónusta er veitt til einstaklinga á vinnumarkaði sem hafa verið fjarverandi vegna veikinda, atvinnulausra, öryrkja og annarra sem stefna á þátttöku á vinnumarkaði (þjónusta Virk er þátttakendum að kostnaðarlausu).

Virk – starfsendurhæfingarsjóður leggur áherslu á samvinnu við einstaklinga og fagaðila sem koma að hans málum, með það að markmiði að auka virkni einstaklingsins og starfsgetu og varðveita ráðningarsamband hans eða leit að samstarfsaðila til að koma því á. Unnið er út frá hæfni og styrkleikum hvers einstaklings samhliða því að yfirvinna þær ögranir sem eru á starfsgetu og/eða starfsaðstæðum.

Þjónustan við einstaklinga felst í:

  • Persónulegri ráðgjöf og hvatningu sem tekur mið af aðstæðum hvers og eins.
  • Samvinnu um gerð og eftirfylgni einstaklingsbundinnar áætlunar um eflingu starfsgetu eða endurkomu á vinnumarkað.
  • Vali á hentugustu úrræðum til að bæta heilsu og styrkja starfsgetu (t.d. mismunandi sérfræðingum, endurmenntun eða mati á starfsaðstæðum).
  • Leiðbeiningar um réttindi, framfærslu, aðrar greiðslur og þjónustu á svæðinu.

Þjónustu við atvinnulífið

Öll samtök launagreiðenda (Samtök atvinnulífsins, Ríkið og Samband sveitarfélaga) eru aðilar að Virk – starfsendurhæfingarsjóði og leggur sjóðurinn áherslu á að eiga gott samstarf við atvinnurekendur og alla þá sem koma að velferð starfsmanna. Slíkt samstarf miðar m.a. að því að auka starfsgetu starfsmanna á vinnumarkaði og styrkja á þann hátt þátttöku í atvinnulífinu og samfélaginu.

Þjónusta við atvinnurekendur felst í:

  • Upplýsingagjöf og ráðgjöf vegna starfsmanna sem eru í skammtíma- eða langtíma fjarveru vegna veikinda eða eru með skerta vinnugetu.
  • Kynningum á markmiðum, þjónustu og starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs.
  • Önnur samvinna og ráðgjöf sem miðar að því að styrkja starfsgetu starfsmanna, bæta starfsaðstæður og lágmarka fjarvistir vegna veikinda starfsmanna (fjarvistarstjórnun).

Ágúst Sigurður Óskarsson starfar sem ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum. Allar nánari upplýsingar um þjónustuna má nálgast hjá Virk – Starfsendurhæfingarsjóði, Garðarsbraut 26 (félagsaðstöðu Framsýnar), 640 Húsavík, sími 464-6608, netfang virk@framsyn.is

Heimasíða: www.virk.is

Deila á