Lög og reglugerðir

Lög Verkalýðsfélags Þórshafnar

1. grein

Félagið heitir Verkalýðsfélag Þórshafnar skammstafað V.Þ. og er félagssvæði þess Langanesbyggð og Svalbarðshreppur.

Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands,Landssambandi íslenskra verslunarmanna og Samiðn-sambands iðnfélaga,sem eru aðilar að Alþýðusambandi Íslands.Jafnframt er félagið aðili að Alþýðusambandi Norðurlands.

Heimili félagsins og varnarþing er á Þórshöfn.

2.grein

Tilgangur félagsins er :

a) Að sameina alla launþega á félagssvæðinu sem heyra til þeim starfsgreinasamtökum sem nefnd eru í l.grein, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.

b) Að vinna að fræðslu og menningarmálum

c) Að hafa nána samvinnu við önnur verkalýðsfélög og vinna með þeim að framgangi þeirra mála er mega verða til aukinnar réttinda , menningar og bættra kjara fyrir alþýðu landsins.

3. grein

Félagið vill ná til og skipuleggja innan sinna vébanda alla þá sem búsettir eru á félagssvæðinu og hafa sér til lífsviðurværis vinnu í eftirtöldum starfsgreinum og öðrum hliðstæðum,sem starfandi eru eða skapast kynnu.

a) Sjómenn og allt það verkafólk, sem vinnur að fermingu og affermingu skipa og hvers konar flutningatækja svo og móttöku og afhendingu farma.

b) Allt það verkafólk, sem vinnur við fiskvinnslu og vinnslu annara sjávarafurða.

c)Allt verkafólk, sem vinnur sem aðstoðarmenn fagmanna í iðnaði , svo sem byggingariðnaði, þar með talið allt það verkafólk sem vinnur að húsbyggingum og efnisflutningum í sambandi víð húsbyggingar, járniðnaði,skipasmíði,blikksmíði,tunnugerð og í óðrum þungaiðnaði.

d) Allt það verkafólk, sem vinnur að hafnargerð, vegagerð, skurðgreftri, ræktun hverskonar, alidýrarækt og hverskonar öðrum bústörfum og efnisflutningum í sambandi við áðurnefndar starfsgreinar.

e) Allt það verkafólk, sem starfar í þjónustu ríkis og bæja og ekki tekur laun samkvæmt launareglu­gerð eða samningum starfsmannafélaga þessara greina.

f) Allt verkafólk sem vinnur við olíu og bensínafgreiðslu

g)Allt ófaglært verkafólk við neta, línu og nótavinnu.

h) Allt starfsfólk heilsugæslustöðva, heilsuhæla, dvalarheimila og annara hliðstæðra stofnanna, sem ekki tekur laun samkvæmt samningum ríkis og/eða sveitarfélaga eða annara samtaka , sem eru starfandi.

i) Allt ófaglært verkafólk veitinga og gistihúsa.

j) Allt verkafólk sem vinnur við hreingerningar k) Allt verkafólk sem vinnur við mötuneyti skóla.

l) Allt verkafólk sem vinnur við sauma og prjónastörf, vefjaiðnað og skinnaiðnað.

m) Allt verkafólk sem vinnur í þvottahúsum og efnalaugum.

n) Allt verkafólk, sem vinnur við efnagerð, húsgagnagerð og matvælaiðnað.

o) Ófaglært starfsfólk I fiskeldi.

p) Bílstjórar og stjórnendur þungavinnuvélar . í eigu annara.

q) Annað verkafólk, sem vinnur að framleiðslu og flutningum og ber ekki að taka laun samkvæmt samningum og samþykktum annara viðurkenndra verkalýðsfélaga.

s) Allt verslunar og skrifstofufólk.

t) Iðnaðarmenn.

4. grein

Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem :

a) Vinna , hafa unnið við eða eru að hefja störf er 2.gr. a liðar greinir frá .

b) eru fullra 16 ára að aldri

c) Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ sem viðkomandi hafa verið í.

Sá sem óskar eftir inngöngu í félagið skal senda skriflega inntökubeiðni til stjórnar félagsins eða þess sem hún vísar til. Inntökubeiðnin skal borinn upp á fundi stjórnar félagsins og samþykki meirihluti mættra stjórnarmanna inntökubeiðnina er umsækjandi orðinn löglegur félagi . Felli stjórnarfundur inntökubeiðni skal félagsfundur úrskurða um inngöngubeiðni . Synji félagsfundur um inngöngu í félagið getur aðili skotið málinu til viðkomandi landssambands og miðstjórnar ASÍ en úrskurður félagsfundar gildir þar til landssamband eða miðstjórn ASÍ hafa úrskurðað um annað.

5. grein

Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga unglinga innan 16 ára aldurs, þá sem greiða til félagsins
en hafa ekki óskað eftir inngöngu sbr. 4. grein og aðra sem stunda vinnu samkvæmt þeim samningum
sem félagið hefur gert og starfa á starfssvæði félagsins um stundarsakir eru félagar í öðru félagi.
Aukafélagar greiða fullt félagsgjald meðan þeir eru á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á
fundum félagsins en hvorki atkvæðisrétt eða kjörgengi. Skyldur félagsins gagnvart aukafélögum eru
þær hinar sömu og gagnvart aðalfélögum. Félagsfundur getur þó ákveðið við afgreiðslu einstakra
mála, í tengslum við kjarasamninga að aukafélagar hafi atkvæðisrétt.
                          

6. grein

Úrsögn skal vera skrifleg . Hún skal afhent formarmi félagsins eða skrifstofu. Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni .

Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hafa niður vinnu vegna deilu.

Réttindi og skyldur félagsmanna, réttindamissir, brottrekstur

 

7. grein

Réttindi félagsmanna eru eftirfarandi:

a) Málfrelsi, tillögu – og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi . Atkvæðisréttur um kjarasamninga eftir nánari ákvörðun félagsfundar.

b) réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins , að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðum sjóðanna.

c) Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.

d) Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.

Aukafélagar , sem ekki uppfylla ákvæði 4. greinar um fullgilda félagsmenn, hafa aðeins málfrelsi og tillögurétt, en njóta ekki annara réttinda skv. a-lið.

Starfsmenn félagsins, starfsmenn og forystumenn þeirra heildarsamtaka, sem það á aðild að, skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, þótt þeir séu ekki félagsmenn.

8. grein

Skyldur félagsmanna eru:

a) Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum .

b) Að greiða félagsgjöld á réttum gjalddaga.

c) Að vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum í greininni eftir því sem félagsfundur eða trúnaðarráðsfundur tekur ákvarðanir um.

d) Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í verkalýðsfélagið og tilkynna til félagsins brot á lögum og samþykktum félagsins.

e) Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, nema einhver sú ástæða hamli, sem félagsfundur tekur gilda, skorast undan að taka kosningu í stjórn eða útnefningu til annara starfa í þágu félagsins. Þó getur stjórnarmaður, sem verið hefur þrjú ár samfellt í stjórn félagsins, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Sama gildir um önnur trúnaðarstörf í þágu félagsins.

9.grein

Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi og skulu innheimt sem 1 % af launum en þó er heimilt að
ákveða lágmarksgjald. Tveggja  ára skuld varðar útstrikun af félagaskrá.
Ellilífeyrisþegar og öryrkjar skulu vera gjaldfríir til félagsins,en halda fullum félagsréttindum,nema þeir hafi gengið yfir í önnur stéttarfélög.

Stjórn félagsins getur veitt þeim sem sjúkir eru og fallið hafa af launaskrá eða stunda nám eftirgjöf á
félagsgjaldi.

10. grein

Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta atkvæða hvort veita skuli áminningu eða víkja félagsmanni úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar. Hver sá maður sem er rækur úr félaginu í lengri eða skemmri tíma sem að áliti félagsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu. Úrskurði félagsfundar um áminningu eða brottvísun félagsmanns má vísa til viðkomandi landssambands og ASÍ, en úrskurður félagsfundar gildir þar til sambandið ákveður annað. Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.

Stjórn og trúnaðarráð

 

11.grein

Stjórn félagsins skipa 5 menn og 5 til vara: Formaður ,varaformaður , ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Varastjórn skipa 5 menn .

Kjörtímabil stjórnar eru tvö ár.

12 grein

Stjórn hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda sbr. 17. grein. Hún ræður starfsmenn, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti starfsmaður af trúnaðarstörfum sem hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum sem trúnaðarstarf hans varðar.

13. grein

Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því Formaður undirritar gerðarbækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna. Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans.

14. grein

Ritari ber ábyrgð á því að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og
lagabreytingar. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi.

15. grein
Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókfærslu eftir nánari ákvörðun
stjórnarinnar.

16. grein
Trúnaðarráð skal vera starfandi í félaginu. Í ráðinu eiga sæti stjórn félagsins og varastjórn og 5 menn
kosnir á aðalfundi. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.
Formaður kveður trúnaðarráð til funda, þó eigi sjaldnar en 1 sinni á ári. Skylt er formanni að boða
trúnaðarráð til fundar ef þriðjungur þess óskar og tilgreinir fundarefni. Trúnaðarráðsfundur er
löglegur ef meirihluti ráðsmanna mætir, eða alls 8 aðalmenn eða varamenn þeirra.
Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar þegar félagsleg
vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi, og ræður einfaldur meirihluti
úrslitum í slíkum málum. Hlutverk trúnaðarráðs er m.a. auk ofanritaðs:
* Að móta stefnu félagsins í mikilsverðum málum .
* Að gera tillögu um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun.
* Að leggja mat á samninga áður en þeir eru bornir undir atkvæði.
17. grein
Stjórn og trúnaðarráð skipa samninganefnd félagsins.Hlutverk samninganefndar er að annast kjarasamningagerð fyrir félagið.Samninganefndinni er heimilt að skipa sérstaka undirnefnd til að fara með einstaka kjarasamninga eða sérsamninga á vegum félagsins.

Formaður félagsins skal vera formaður samninganefndar.

18. grein

Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur samkvæmt lögum félagsins.  Kjörstjórn skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðaráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsinsog /eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja kjörmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.

Deildir innan félagsins

19.grein

Aðalfundur félagsins getur ákveðið að stofna deildir/svið innan félagsins er taki til þeirra starfsgreina,sem félagsmenn vinna í og eru í samræmi við sviðskiptingu þeirra landssamtaka,sem félagið er aðili að.

20.grein

Deildir innan félagsins ráða sérmálum sínum,kjósa sér stjórn,setja sér starfsreglur og fara með samninga um kaup og kjör innan viðkomandi sérgreinasambands.Starfsreglur deildanna þurfa samþykki aðalfundar Verkalýðsfélags Þórshafnar.

Nú starfa eftirfarandi deildir í félaginu: Iðnaðarmannadeild , Sjómannadeild og Verslunarmannadeild.

Fundir og stjórnarkjör

 

21. grein

Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst 25 fullgildir félagsmenn óska þess við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst 2 sólarhringa fyrirvara með dreifimiðum.  Þó má í sambandi við vinnudeilur boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Komi upp ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski einstakur félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.

22. grein

Fyrir 31 janúar, það ár sem kjör fer fram í trúnaðarstöður í félaginu,  skal stjórn og trúnaðarráð félagsins gera tillögur um félaga í allar trúnaðarstöður félagsins fyrir næsta kjörtímabil. Listi stjórnar og trúnaðarráðs til trúnaðarstarfa fyrir félagið  skal þá þegar auglýstur, ásamt þeim fresti, sem gefinn er til að skila inn breytingartillögum.

Heimilt er hverjum fullgildum félagsmanni að koma með tillögur um félaga í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með heildartillögu eða þá einstaka stjórn. Tillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim sem stungið er uppá og meðmæli með a.m.k. 15 fullgildra félagsmanna. Heildartillögum skal fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 25 fullgildra félagsmanna.

Gefinn er frestur til 15 febrúar til að skila tillögum inn til stjórnar og trúnaðarráðs. Skylt er að koma breytingartillögum til skrifstofu félagsins. Allar tillögur sem berast skulu merktar eftir stafrófsröð í þeirri röð sem þær berast inn.

Hafi komið fram tvær eða fleiri heildartillögur skal merkja tillögu stjórnar og trúnaðarráðs með bókstafnum A, en aðrar tillögur með bókstöfunum þar á eftir, í þeirri röð sem þær bárust skrifstofu félagsins.

Hafi komið fram breytingartillaga um félaga í einstakar trúnaðarstöður, skal kjósa milli allra, sem tillögur hafa verið gerðar um í hvert trúnaðarstarf fyrir sig og er sá rétt kjörinn sem flest atkvæði hlýtur.

Komi fram nýjar heildartillögur eða breytingartillögur skal fara fram atkvæðagreiðsla í samræmi við reglugerð A.S.Í. um allsherjaratkvæðagreiðslur. Kjörstjórn getur einnig ákveðið að viðhafa póstkosningu.

Komi engar breytingartillögur fram, né fleiri listar, teljast þeir félagar sem stjórn og trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir og skal kosningu þannig lýst á aðalfundi.

23. grein

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með 7 sólarhringa fyrirvara og hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Um boðun aðalfundar fer að öðru leyti með sama hætti og boðun félagsfundar.

Dagskrá aðalfundar:

l. Skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár.

2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.

3. Lýst kosningu stjórnar,varamanna í stjórn, trúnaðarráðs og skoðunarmanna.

4. Kosning löggilts endurskoðenda eða endurskoðendaskrifstofu.

5. Lagabreytingar, ef tillögur þar um liggja fyrir.

6. Önnur mál 

 

Fjármál

 

24. grein.

Aðalfundur skal ákveða upphæð og greiðslumáta félagsgjalda.  Reglulegt þing ASÍ ákveður þó lágmarksfélagsgjald verkalýðsfélaga hverju sinni,sbr.4l.gr laga ASÍ.

25. grein

Af tekjum félagsins skal greiða öll útgjöld þess og annan kostnað, er stafar af samþykktum félagsfunda eða stjórnar . Við meiri háttar ráðstafanir á eigum félagsins þarf samþykki félagsfundar.

26. grein

Tveir félagslegir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið starfsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir samkv. 20 grein. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé varið til þeirra verkefna sem félagsfundur og eða stjórn hafa ákveðið. Auk athugunar hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðenda endurskoða reikninga og fjárreiður í lok hvers reikningsárs. Reikningar félagsins skulu liggja frammi, til skoðunar fyrir félagsmenn 5 dögum fyrir aðafund. 

27. grein

Sjóðir í eigu eða vörslu félagsins skulu vera:

Félagssjóður , sjúkrasjóður,fræðslusjóður, orlofsheimilasjóður,og vinnudeilusjóður, svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að vera.  Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð sem samþykkja þarf á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera , hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.  Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt.

Lagabreytingar

 

28 . grein

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði . Einnig er heimilt að breyta lögum á félagsfundi , hafi lagabreytingar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinga getið í fundarboði. Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum fullgildra félagsmanna.  Breytingar á lögum þessum koma fyrst til framkvæmda er stjórn hlutaðeigandi landssambands og miðstjórn ASÍ hefur staðfest þær.

Félagsslit

 

29 grein

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjar­atkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar ASÍ.

Um sameiningu félaga skal kallað á sama hátt og lagabreytingar.

Lög félagsins þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 24.maí  2012