Húsavíkurstofa í karphúsinu

Þegar formaður Framsýnar kom í húsnæði ríkissáttasemjara í byrjun síðustu viku var vel tekið á móti honum af Ástráði Haraldssyni ríkissáttasemjara en Aðalsteinn Árni hefur tekið þátt í þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir síðustu vikurnar með hléum milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Tilefnið var ekki síst að sýna formanni Framsýnar ljósmyndir sem teknar voru á Húsavík í byrjun síðustu aldar af húsum og vinnandi verkafólki. Myndunum hefur verið komið fyrir í karphúsinu, það er í einu af þeim herbergjum þar sem kjaraviðræðurnar fara fram. Svo gæti farið að næstu kjarasamningar verði undirritaðir í herberginu góða sem gengur undir nafninu Húsavíkurstofa hjá forsvarsmönnum Framsýnar.

Sumarhús 2024 -opnað fyrir umsóknir

Stéttarfélögin hafa opnað fyrir umsóknir um orlofshús og íbúðir sumarið 2024. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og umsóknareyðublað hér á heimasíðunni. Frestur til að sækja um orlofskosti á vegum félaganna er til 10. apríl 2024. Strax í kjölfarið verður húsunum  úthlutað til félagsmanna. Þá liggur frammi Fréttabréf á Skrifstofu stéttarfélaganna og í öllum helstu verslunum á svæðinu með upplýsingum um orlofskosti stéttarfélaganna, það er allt frá Mývatnssveit til Þórshafnar. Félögin hafa jafnframt áveðið að standa fyrir sumarferð á Langanes um miðjan júní. Ferðin verður auglýst nánar síðar.

Líf og fjör á Öskudaginn

Öskudagurinn á Húsavík hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum manninum í bænum fagra við Sjálfanda. Alls konar karakterar, sumir sælir en aðrir all rosalegir, hafa verið vappandi um göturnar í dag með poka í hönd eða á baki. Heilsað hefur verið upp á fyrirtæki og stofnanir um allar trissur og sungið í skiptum fyrir mæru. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru á Skrifstofu stéttarfélaganna en fjöldi barna sem og fullorðnir hafa komið við og tekið lagið. Við þökkum kærlega fyrir okkur.

Næstu skref í kjarabaráttu félagsmanna til umræðu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar sem janframt er samninganefnd félagsins kemur saman til fundar á morgun kl. 17:00 í fundarsal félagsins ásamt stjórn Framsýnar-ung. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins en um þrjátíu félagsmenn sitja í þessum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Kjaramál verða án efa fyrirferðarmikil á fundinum enda ósamið er við Samtök atvinnulífsins. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Kjarasamningur sjómanna

4. Staðan í kjaraviðræðum

5. Orlofskostir 2024

6. Varða-rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins

7. Samkaup

8. Tillögur laganefndar

9. Hátíðarhöldin 1. maí

10. Utanlandsferð trúnaðarráðs

11. Flugsamgöngur Hús-Rvk

12. Hraunholt 28

13. ÞÞ-stjórnarkjör

14. Starfsmannaferð

15. Erindi frá Golfklúbbi Húsavíkur

16. Þorrasalir 1-3

17. Útbreiðsla á Fréttabréfinu

18. Bjarg íbúðafélag

19. Önnur mál

Færðu Völsungi æfingavesti

Barna- og unglingaráð Völsungs biðlaði nýlega til Framsýnar um að styrkja kaup á æfingavestum fyrir yngri flokka félagsins í knattspyrnu. Framsýn varð við ósk íþróttafélagsins og færði þeim ný vesti sem að sögn forsvarsmanna koma að góðum notum í yngri flokka starfinu sem er með öflugasta móti um þessar mundir. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, gerði sér ferð út á æfingasvæði Völsungs þar sem ungir iðkendur voru á æfingu undir stjórn Elmars Ö. Guðmundssonar þjálfara og afhendi þeim vestin formlega. Með þeim á hópmyndinni er Aðalsteinn Jóhann Friðriksson yfirþjálfari yngri flokka Völsungs.

Sjómenn innan Framsýnar – Atkvæðagreiðsla er hafin

Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamning SSÍ og SSÍ, sem Framsýn á aðild að fyrir sína sjómenn, er hafin. Hlekkurinn er Atkvæðagreiðsla um kjarasamning sjómanna sem undirritaður var 6. febrúar 2024

Kosningin hófst kl. 12:00 mánudaginn 12. febrúar og lýkur henni föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00. Athugið að hver einstaklingur getur aðeins kosið einu sinni. Því er mikilvægt að sjómenn kynni sér samninginn vel áður en kosið er. Þá er jafnframt afar mikilvægt að sjómenn greiði atkvæði um kjarasamninginn. Hægt er að nálgast samninginn hér á heimasíðunni. Sjómenn innan Framsýnar sem telja sig geta kosið en eru ekki á kjörskrá geta kært sig inn á kjörskrá með því að setja sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Sjómannadeild Framsýnar

Framkvæmdir við Hraunholt ganga vel

Um þessar mundir eru í byggingu tvær orlofs- og sjúkraíbúðir á vegum Framsýnar og Þingiðnar á Húsavík. Áætlað er að þær verði klárar 1. ágúst 2024 og fari þá þegar í útleigu til félagsmanna. Fyrirspurnir eru þegar byrjaðir að berast varðandi íbúðirnar, það er hvenær þær verði klárar í útleigu en eins og fram kemur í fréttinni er áætlað að svo verði með haustinu 2024.

Helstu atriði kjarasamnings sjómanna

Þann 6. febrúar var undirritaður nýr kjarasamningur milli SSÍ og SFS. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu hér á síðunni, undir annarri frétt er samningurinn byggður á samningnum sem felldur var í fyrra en í þessum samningi er tekið tillit til helstu atriða sem voru gagnrýnd í þeim samningi. Kynningu á helstu atriðum samningsins og þeim breytingum sem gerðar voru má sjá sjá hér.

Samninginn í heild sinni má nálgast hér.

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og hefst á hádegi þann 12. febrúar. Atkvæðagreiðslunni lýkur kl. 15:00 þann 16. febrúar. Athugið að hver einstaklingur getur aðeins kosið einu sinni og því ekki hægt að breyta atkvæðinu eftir að búið er að kjósa. Því er mikilvægt að sjómenn kynni sér samninginn vel áður en þeir kjósa.

Nýr kjarasamningur undirritaður fyrir sjómenn

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var undirritaður í húsnæði Ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019. Árið 2023 var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna. Samningaviðræður um nýjan samning hafa staðið yfir síðustu mánuði. Í þeim viðræðum var lögð mikil áhersla á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagnrýni sem fram kom í umræðum um samninginn á síðasta ári og hefur það gengið eftir í helstu atriðum.

Nú að lokinni undirritun verða samningarnir kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins:
„Við erum núna í þeirri stöðu að vera með kjarasamning í höndunum sem við höfum undirritað og er að fara í atkvæðagreiðslu hjá sjómönnum innan okkar félaga. Að mínu mati er þetta góður samningur og við höfum náð að semja um flest þau atriði sem gagnrýnd voru í samningnum sem var felldur í fyrra. Núna eru sjómenn í góðri stöðu til að samþykkja samning sem verður með binditíma í 5 ár og ég vonast eftir því að samningurinn verði samþykktur“.

Breytingar á binditíma, uppsagnarákvæði og fleiri breytingar
Í nýja samningnum er binditími samningsins styttur verulega eða úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Þetta er gundvallarbreyting á samningnum. Önnur mikilvæg breyting er að grein 1.39 í samningnum hefur verið breytt. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa óvinhalla nefnd sem hefur það hlutverk. Ef ekki næst samkomulag um nefndarmenn mun Ríkissáttasemjari koma að skipan nefndarmanna. Þá má finna mikilvæga breytingu um ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis og verður sú ísun ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Útgerðarmenn eiga að semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi. Ef sjómenn sjá um yfirísun sjálfir í neyðartilfellum fár þeir greidda yfirvinnu fyrir. Í samningunum nú er að finna sambærilegt ákvæði og var í síðasta samningi um að framlag í lífeyrissjóð geti hækkað úr 12,0% í 15,5% en sjómenn hafa þó val um þetta atriði.

Sjómenn fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi sem skiptir máli. Kemur til greiðslu 1. mars 2024. Desemberuppbót kemur inn í samninginn þann 15. desember 2028. Miðað verður við 160 lögskráningardaga á ári.

Nánari upplýsingar um kjarasamningana má finna á vefsvæði Sjómannasambandsins og facebooksíðu sambandsins www.ssi.is og https://www.facebook.com/sjomannasamband

Upplýsingar um samningana gefa:
Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambandsins í síma 892-0175
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins í síma 869-8687

Rétt er að taka fram að sjómönnum innan Framsýnar er velkomið að koma í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna vanti þeim frekari upplýsingar um samninginn.

Framsýn fundar með Samkaup

Framsýn hefur komið á framfæri við Samkaup óánægju heimamanna með þjónustu fyrirtækisins á Húsavík, sérstaklega hvað varðar verslunina Nettó. Krafist er úrbóta þegar í stað. Á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar á dögunum urðu miklar umræður meðal fundarmanna um stöðuna varðandi matvöruverslanir á Húsavík. Skorað var á forsvarsmenn Framsýnar að beita sér í málinu, þar sem staðan væri óviðunandi með öllu. Rétt er að taka skýrt fram að gagnrýnin beinist ekki gagnvart starfsfólki Nettó.

Í kjölfar aðalfundar deildarinnar átti formaður Framsýnar símafund með forstjóra Samkaupa um málið þar sem óánægju heimamanna var komið á framfæri um leið og skorað var á fyrirtækið að taka ábendingum heimamanna alvarlega. Fundurinn var vinsamlegur enda fara hagsmunir beggja aðila saman, það er að efla starfsemi Samkaupa á svæðinu ekki síst í ljósi þess að aðrar verslunarkeðjur hafa ekki sýnt því áhuga að koma inn á svæðið og hefja verslunarrekstur.  Niðurstaða samtalsins var að heyrast aftur um miðjan febrúar.

Heimamenn kalla þegar í stað eftir úrbótum í verslunarrekstri Samkaupa á Húsavík. Kallað er eftir stærri og og öflugri matvörubúð með góðu aðgengi. Þess er vænst að áform Samkaupa um að byggja upp nýtt verslunarhúsnæði verði að veruleika á allra næstu árum. Framsýn hefur þrýst á það í viðræðum við forsvarsmenn Samkaupa.

Þingiðn hækkar námsstyrki

Fræðslusjóður Þingiðnar hefur verið að eflast ár frá ári en hann var stofnaður 2018 af félagsmönnum sem greiða ákveðið framlag til sjóðsins á hverju ári. Þess vegna hefur verið tekin ákvörðun um að hækka styrki úr sjóðnum. Frá og með síðustu áramótum eiga félagsmenn rétt á allt að kr. 130.000,- styrk á ári, þó aldrei meira en 90% af kostnaði við námið. Nýti félagsmenn ekki sjóðinn í þrjú ár hækkar upphæðin í kr. 390.000,-. Jafnframt kemur inn ný regla varðandi tveggja ára rétt. Það er, nýti félagsmenn ekki réttinn í tvo ár eiga þeir rétt á kr. 260.000,- í niðurgreiðslur.

Góð heimsókn til PCC á Bakka

Forsvarsmenn Framsýnar, Aðalsteinn Árni og Aðalsteinn Jóhannes gerðu góða ferð til PCC á Bakka í vikunni. Félagarnir fengu höfðinglegar móttökur. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um starfsemina og heilsa upp á starfsmenn verksmiðjunnar. Um þessar mundir eru um 140 starfsmenn við störf auk þess sem nokkrum verkþáttum hefur verið útvistað til undirverktaka. Það voru þau Gestur Pétursson forstjóri, Steinþór Freyr Þorsteinsson öryggisstjóri, Þórunn Harðardóttir sérfræðingur í öryggis-  og umhverfisteymi og Marella Steinsdóttir mannauðsstjóri sem sáu um kynninguna.

Konur og karlar starfa hjá PCC sem er eitt öflugasta fyrirtækið á félagssvæði stéttarfélaganna. Gestur Péturs forstjóri og Aðalsteinn J. eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna heilsa hér upp á tvo starfsmenn.

Ingimar Knútsson er öflugur maður í alla staði en hann er einn af þremur trúnaðarmönnum PCC.

Steinþór Freyr Þorsteinsson er að sjálfsögðu með merki Völsungs á skjánum en hann á langan og farsælan feril sem knattspyrnumaður áður enn hann kom til starfa hjá PCC. Hefur bæði spilað á Íslandi og eins erlendis auk þess að vera um tíma í íslenska landsliðinu.

Það er mikill mannauður hjá PCC, hér má sjá Kristján Hjaltalín sem undanfarin ár hefur verið á sjó en er nú kominn til starfa á Bakka.

Þórunn og Marella eru báðar í stjórnunarstörfum á Bakka, hér eru þær ásamt formanni Framsýnar í skoðunarferð um verksmiðjuna.

Óánægja með hækkanir á gjaldskrám

Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík hafa borist ábendingar, ekki síst frá fjölskyldufólki á Húsavík sem kvartar mjög yfir hækkunum Norðurþings á gjaldskrám sveitarfélagsins um síðustu áramót, hækkanirnar nemi í einhverjum tilfellum tugum prósenta. Gögn sem staðfesta það hafa verið lögð fram. Framsýn hafði áður skorað á sveitarfélögin á félagssvæðinu líkt og fjölmörg önnur stéttarfélög hafa gert víða um land, það er að skora almennt á sveitarfélög í landinu að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf. Því miður hefur það ekki gengið eftir. Eins og kunnugt er standa yfir kjaraviðræður um þessar mundir milli aðila vinnumarkaðarins. Mörg sveitarfélög hafa gefið út að þau muni ekki skorast undan ábyrgð og lækka sínar gjaldskrár enda verði samið með ábyrgum hætti í yfirstandandi kjaraviðræðum. Stéttarfélögin munu standa vaktina áfram og fylgast með gjaldskrárhækkunum sveitarfélaga enda vega þær mjög hátt í heimilisbókhaldinu, ekki síst hjá barnafólki.

Námsstyrkir hækkaðir til félagsmanna

Við gerum betur og betur við okkar félagsmenn sem starfa á almenna vinnumarkaðinum. Aðild félagsins að fræðslusjóðnum Landsmennt gerir félaginu þetta kleift. Hækkanirnar taka gildi frá og með 1. janúar 2024.

Það er ánægjulegt að kynna þessa  breytingu en með þessu er leitast við að mæta þörfum þeirra félagsmanna sem vilja bæta þekkingu, ná í aukin réttindi og mæta morgundeginum með þá hæfni sem nauðsynleg er. Þessi breyting mun vonandi verða til þess að enn fleiri geti sótt og  greitt fyrir nám eða námskeið sem teljast til starfsmenntunar.

Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu tvö ár eiga rétt á styrk allt að kr. 260.000,-  eða síðustu þrjú ár eiga rétt á allt að kr. 390.000,-  fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt nánari reglum sjóðsins. Tveggja ára reglan kemur ný inn frá síðustu áramótum. Uppsafnaður réttur skerðist ekki hafi félagsmaður fengið styrk undir kr. 50.000,- á tíma uppsöfnunar. Sá styrkur kemur þó til frádráttar fullum rétti.

Samhliða breytingunum um síðustu áramót hækkar endurgreiðsluhlutfallið úr  80% í 90% af námskeiðsgjaldinu, þó að hámarki kr. 130.000.- á ári. Til viðbótar má geta þess að fullgildir félagsmenn Framsýnar eiga rétt á extra styrk kr. 100.000,-. stundi þeir kostnaðarsamt nám.

Þingeyjarsveit svarar kalli Framsýnar

Framsýn hefur undanfarið skorað á sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum að sína aðhald í hækkunum á gjaldskrám þar sem það muni án efa liðka fyrir gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum. Eins og fram hefur komið fjölmiðlum standa kjaraviðræður yfir um þessar mundir enda kjarasamningar lausir á morgun, 31. janúar 2024. Tjörneshreppur og Norðurþing höfðu áður svarað ákalli Framsýnar með jákvæðum hætti. Nú hefur Þingeyjarsveit jafnframt sent frá sér yfirlýsingu sem er í  anda viðbragða Norðurþings. Tjörneshreppur hafði áður samþykkt að hækka ekki gjaldskrár um síðustu áramót. Framsýn fagnar viðbrögðum sveitarfélaganna sem hafa greinilega vilja til þess að leggja sitt að mörkum svo takist að klára gerð kjarasamninga á næstu vikum. Hér má sjá viðbrögð annars vegar Byggðaráðs Þingeyjarsveitar og hins vegar sveitarstjórnar.

Byggðaráð Þingeyjarsveitar:

Eitt stærsta hagsmunamál fyrir heimilin í landinu er verðstöðugleiki. Lækkun verðbólgu, stýrivaxta og ekki síður langtímavaxta skiptir miklu máli fyrir fjárhagslega afkomu fólks, fyrirtækja og sveitarfélaga. Byggðarráð styður þær fyrirætlanir að lögð sé áhersla á langtímakjarasamninga með verðstöðugleika til lengri tíma að leiðarljósi. Ef í burðarliðnum er þjóðarsátt um stöðugt verðlag, þar sem bæði launþegahreyfingar starfsmanna á almenna markaðinum og opinberra starfsmanna ganga í takt, þá er Þingeyjarsveit reiðubúin að leggja sitt af mörkum og endurskoða gjaldskrárhækkanir. Byggðarráð minnir jafnframt á að innan sveitarfélagsins eru einingar á borð við sorphirðu. Lögum samkvæmt er gert ráð fyrir að slíkar einingar séu sjálfbærar og verða gjaldskrár að taka mið af því. Almenn hækkun á gjaldskrám Þingeyjarsveitar í fjárhagsáætlun 2024 er 7,5% sem tók mið að áætlaðri verðbólgu ársins 2023 og 2024. Þrátt fyrir samþykkta fjárhagsáætlun ársins 2024 lýsir byggðarráð Þingeyjarsveitar yfir vilja til að endurskoða gjaldskrárhækkanir verði af þjóðarsátt.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar:
Sveitarstjórn tekur undir bókun byggðarráðs og gerir hana að sinni. Bókun sveitarstjórnar: Eitt stærsta hagsmunamál fyrir heimilin í landinu er verðstöðugleiki. Lækkun verðbólgu, stýrivaxta og ekki síður langtímavaxta skiptir miklu máli fyrir fjárhagslega afkomu fólks, fyrirtækja og sveitarfélaga. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar styður þær fyrirætlanir, að lögð sé áhersla á langtímakjarasamninga með verðstöðugleika til lengri tíma að leiðarljósi. Ef í burðarliðnum er þjóðarsátt um stöðugt verðlag, þar sem bæði launþegahreyfingar starfsmanna á almenna markaðinum og opinberra starfsmanna ganga í takt, þá er Þingeyjarsveit reiðubúin að leggja sitt af mörkum og endurskoða gjaldskrárhækkanir. Sveitarstjórn minnir jafnframt á að innan sveitarfélagsins eru einingar á borð við sorphirðu en lögum samkvæmt er gert ráð fyrir að slíkar einingar séu sjálfbærar og verða gjaldskrár að taka mið af því. Almenn hækkun á gjaldskrám Þingeyjarsveitar í fjárhagsáætlun 2024 er 7,5% sem tók mið að áætlaðri verðbólgu ársins 2023 og 2024. Þrátt fyrir samþykkta fjárhagsáætlun ársins 2024 lýsir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar yfir vilja til að endurskoða gjaldskrárhækkanir, verði af þjóðarsátt. Samþykkt samhljóða.

Ágæti sjómaður, ert þú á lausu?

Vonandi er þetta mjög grípandi fyrirsögn. Þannig er að Sjómannasamband Íslands hefur boðað til fundar um kjaramál og yfirstandandi kjaraviðræður við SFS í Reykjavík næstkomandi þriðjudag. Sjómannadeild Framsýnar á aðild að samningnum. Félagið hefur áhuga á því að senda tvo til þrjá starfandi sjómenn innan félagsins á fundinn enda um að ræða mjög mikilvægan fund um kjaramál en til fróðleiks má geta þess að sjómenn hafa verið samningslausir frá árslokum 2019.

Formaður deildarinnar mun að sjálfsögðu fara á fundinn. Eðlilega er ekki auðvelt að fylgjast með því hvaða sjómenn innan Framsýnar eru á sjó á hverjum tíma eða í landi milli veiðiferða. Því er hér með skorað á þá sjómenn sem koma því við og hafa tíma til að fara með formanni Sjómannadeildar Framsýnar á fundinn að gefa sig fram við Skrifstofu stéttarfélaganna eða Jakob Gunnar Hjaltalín formann deildarinnar í síðasta lagi á mánudaginn. Koma svo sjómenn

Greitt úr Félagsmannasjóði til starfsmanna sveitarfélaga innan Framsýnar

Í kjarasamningi aðildarfélaga SGS og Sambands ísl. sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn var samið um að sveitarfélögin greiddu 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í svokallaðan Félagsmannasjóð. Hvað félagsmenn Framsýnar varðar, þá er sjóðurinn vistaður hjá Framsýn.

Kveðið er á um að standa skuli skil á þessum greiðslum til félagsmanna 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Greitt er úr sjóðnum árlega, það er 1. febrúar. Á næstu dögum munu því berast greiðslur úr Félagsmannasjóðnum til félagsmanna sem starfa hjá Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Tjörneshrepp og stofnunum þeirra.

Rétt er að geta þess að ekki hefur verið tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem mun berast félagsmönnum í lok næstu viku, það er eftir 1. febrúar. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.

Í heildina munu 498 félagsmenn innan sveitarfélaga fá greiddar um 26 milljónir úr Félagsmannasjóðnum. Starfsmenn sveitarfélaga sem telja sig eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum, en hafa ekki fengið greiðslur, eru þeir vinsamlegast beðnir um að snúa sér til Skrifstofu stéttarfélaganna.

Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar kjörtímabilið 2024-2026

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti í kvöld tillögu Uppstillingarnefndar um fulltrúa í stjórnir, ráð og nefndir á komandi kjörtímabili sem hefst eftir aðalfund félagsins í vor. Uppstillinganefndin auglýsti nýlega eftir félagsmönnum til að taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið. Það gleðilega er að hópur félagsmanna á vinnumarkaði svaraði kallinu og hefur þeim öllum verið komið fyrir í trúnaðarstörfum og eru því á lista nefndarinnar. Endurnýjunin í stjórn, varastjórn og trúnaðarráði er veruleg eða um 40 prósent. Stilla þarf upp í rúmlega 80 stöður innan félagsins. Frestur til að skila inn nýjum tillögum er til 29. febrúar 2024.

Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar kjörtímabilið 2024-2026

Aðalstjórn:                                                                                 Vinnustaður:

Aðalsteinn Árni Baldursson         Formaður                           Skrifstofa stéttarfélaganna
Ósk Helgadóttir                                 Varaformaður                   Þingeyjarsveit – Stórutjarnaskóli
Sigurveig Arnardóttir                    Ritari                                 Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Jakob G. Hjaltalín                             Gjaldkeri                              ÚA – Laugum
Elva Héðinsdóttir                           Meðstjórnandi                PwC Húsavík
Kristján M. Önundarson                 Meðstjórnandi                Vegagerðin
Torfi Aðalsteinsson                         Meðstjórnandi                 Jarðboranir hf.

Varastjórn:
Guðný I. Grímsdóttir                                                                ÚA – Laugum
Agnes Einarsdóttir                                                                          Vogafjós
María Jónsdóttir                                                                             Fatahreinsun Húsavíkur sf.                        

Stefán Stefánsson                                                                          Landsvirkjun
Gunnþórunn Þórgrímsdóttir                                                      Norðurþing – Leikskólinn Grænuvellir
Börkur Kjartansson                                                                       Brim hf.

Trúnaðarráð:

Arnar Guðmundsson                                                                    Sjóvá

Sólveig Mikaelsdóttir                                                                    Norðurþing – Stjórnsýsluhús

Guðlaug Anna Ívarsdóttir                                                            Norðurþing – Öxarfjarðarskóli

Sigfús Hilmir Jónsson                                                                    Rifós hf.

Sigrún Hildur Tryggvadóttir                                                        PCC BakkiSilicon hf.
Þráinn Þráinsson                                                                            Víkurraf ehf.

Sunna Torfadóttir                                                                           Norðurþing – Leikskólinn Grænuvellir
Fanný S Cloé Goupil Thiercelin                                                   Penninn/Eymundsson

Þórdís Jónsdóttir                                                                            Þingeyjarsveit – Þingeyjarskóli

Rúnar Þór Jóhannsson                                                                 Jón Ingi Hinriksson ehf.
Ölver Þráinsson                                                                               Norðlenska ehf

Birta G. Amlin Sigmarsdóttir                                                      Heilbrigðisstofnun Norðurlands                                                                           

Jónas Sævarsson                                                                      SAH bretti  ehf.
Ingimar Knútsson                                                                           PCC BakkiSilicon hf.

Guðrún St. Steingrímsdóttir                                                       Penninn/Eymundsson            

Stjórn fræðslusjóðs:

Börkur Kjartansson

Gunnþórunn Þórgrímsdóttir

Stefán Stefánsson

Varamenn:                        

Kristján M. Önundarson

Elva Héðinsdóttir

Stjórn sjúkrasjóðs:               

Aðalsteinn Á. Baldursson

Arnar Guðmundsson

Ingibjörg Benediktsdóttir

Varamenn:                        

Ósk Helgadóttir

Sólveig Mikaelsdóttir

Jónína Hermannsdóttir

Stjórn orlofssjóðs:                

Ósk Helgadóttir

Kristján Ingi Jónsson

Agnieszka Anna Szczodrowska 

Varamenn:

Þórunn Anna Magnúsdóttir

Sunna Torfadóttir

Stjórn vinnudeilusjóðs:        

Elísabet Gunnarsdóttir

Jakob Gunnar Hjaltalín

Gunnhildur Gunnsteinsdóttir

Varamenn:                        

Ásgerður Heba Aðalsteinsdóttir

Elísa Dagmar Andrésdóttir

Laganefnd:                

Aðalsteinn J. Halldórsson

Torfi Aðalsteinsson

Sigurveig Arnardóttir

Varamenn:                        

Ingimar Knútsson

Hjördís Sverrisdóttir

Kjörstjórn:                 

Sólveig Mikaelsdóttir

Jónas Sævarsson

Varamenn:                        

Elísabet Gunnarsdóttir

Ingimar Knútsson

Skoðunarmenn reikninga:

Sigrún Marinósdóttir

Pétur H. Pétursson

Varamaður:                      

Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir

Siðanefnd:

Ari Páll Pálsson, formaður

Þóra Kristín Jónasdóttir

Ingunn Guðbjörnsdóttir

Varamenn:

Friðrika Illugadóttir

Eydís Kristjánsdóttir

Fulltrúar í 1. maí nefnd stéttarfélaganna:

Sigurveig Arnardóttir

Aðalsteinn Árni Baldursson

Varamenn:                        

Guðný Ingibjörg Grímsdóttir

Þráinn Þráinsson

Deild verslunar- og skrifstofufólks:

Aðalsteinn J. Halldórsson formaður

Elva Héðinsdóttir varaformaður

Karl Hreiðarsson ritari

Anna Brynjarsdóttir meðstjórnandi

Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir meðstjórnandi

Sjómannadeild Framsýnar:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður

Börkur Kjartansson varaformaður

Gunnar Sævarsson ritari

Sigdór Jósefsson meðstjórnandi

Héðinn Jónasson meðstjórnandi

Stjórn Framsýnar-ung:

Sunna Torfadóttir formaður

Önundur Kristjánsson ritari

Birta G. Amlin Sigmarsdóttir meðstjórnandi

Arnór Elí Víðisson meðstjórnandi

Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félaga í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan félaga í trúnaðarstöður fyrir næstu starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skriflega heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 40 fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 80 fullgildra félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26, Húsavík fyrir 1. mars 2024. Kosningar fara fram í samræmi við reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur.

Rétt er að taka fram að auglýsing þessi á ekki við um kjör í stjórnir deilda innan félagsins þar sem kosið er í stjórnir deilda á aðalfundum deildanna, það er Sjómannadeildar og Deildar verslunar- og skrifstofufólks. Það sama á við um  stjórn Framsýnar-ung. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar skipar í stjórnina á hverjum tíma samkvæmt ákvæðum félagslaga.

Húsavík 24. janúar 2024

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags

Hvatningarbréf til Framsýnar frá stjórn Félags eldri Mývetninga

Um leið og við þökkum yfirlýstan  stuðning Framsýnar við kjör eldri borgara sendum við hér eldri Mývetningar hvatningarbréf til félagsins:

„Stjórn Félags eldri Mývetninga hvetur til víðtækrar samstöðu um að ná niður verðbólgu og vöxtum.  Jafnframt hvetur stjórnin verkalýðsfélagið Framsýn til að tryggja  að eldra fólk verði ekki skilið eftir og því tryggðar verulegar kjarabætur í þeim viðræðum um kjör sem fram fara milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins. Einsýnt þykir að tómt mál sé að tala um þjóðarsátt eða breiðfylkingu á þeim vettvangi ef ekki á að taka tillit til löngu tímabærra úrbóta á kjörum eldra fólks en innan þessa hóps er að finna fátækustu aðila í samfélaginu sem oftar en ekki búa við algjört úrræðaleysi og verða að treysta á stuðning samfélagsins til daglegra þarfa.

Hér er vísað til stefnu LEB í kjaramálum þar sem þess er krafist að  almennt frítekjumark  verði hækkað og gripið til sértækra aðgerða til að bæta kjör þeirra verst settu. Áfram verði síðan unnið að lagfæringum og úrbótum.

Rétt er að minna á að langflest þeirra tugþúsunda eldra fólks sem um ræðir eru eldri félagsmenn  í stéttarfélögunum  sem lögðu grunninn að íslensku atvinnulífi og því þjóðfélagi sem við teljumst til í dag. Mikilvægt er að fulltrúar þeirra  eigi aðkomu að þeim viðræðum sem standa yfir við stjórnvöld.

Með baráttukveðjum!

Stjórn  Félags eldri Mývetninga“

Bréfið frá félögum okkar í Mývatnssveit var til umræðu í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar í kvöld og fékk það mjög góða umræðu. Innihaldi bréfsins hefur þegar verið komið á framfæri við Starfsgreinasamband Íslands sem fer með samningsumboð Framsýnar gagnvart ríkinu. Þá hefur Framsýn auk þess komið sínum ábendingum á framfæri við Starfsgreinasambandið hvað varðar málefni eldri félagsmanna. Áhersluatriðin sem voru unnin í samstarfi við Félag eldri borgara á Húsavík og nágrennis eru eftirfarandi:

  • Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við þá kröfu Landssambands eldri borgara að grunnlífeyrir frá TR verði sambærilegur lægsta taxta SGS.
  • Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við þá kröfu Landssambands eldri borgara að frítekjumark vegna lífeyristekna verði hækkað verulega en það hefur verið óbreytt til margra ára.
  • Framsýn telur afar óeðlilegt að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð falli niður við 70 ára aldur fólks á vinnumarkaði.
  • Framsýn kallar eftir leiðréttingum á framfærsluviðmiðum til að tryggja eldri borgurum mannsæmandi lífsviðurværi.
  • Framsýn telur eðlilegt að tekið verði tillit til þess við ákvörðun lífeyris að lífslíkur sjóðfélaga eru mismunandi. Horft verði til breytinga sem verið er að gera í Danmörku á almannatryggingakerfinu til að mæta misjöfnum lífslíkum.
  • Framsýn telur eðlilegt að séreign verði gerð skattfrjáls.
  • Framsýn krefst þess að ríkið jafni að fullu örorkubyrgði lífeyrissjóðanna.

Lágmarksfélagsgjald og kjörgengi

Félagsgjöld í Framsýn eru ákveðin á aðalfundi félagsins á hverjum tíma. Þau hafa verið óbreytt til fjölda ára eða 1% af launum starfsmanna. Til að teljast fullgildur félagsmaður þurfa menn að vera á vinnumarkaði og hafa náð að greiða lágmarksfélagsgjald kr. 14.649,- á árinu 2023. Félagsmenn sem eru á vinnumarkaði og ná ekki að greiða lágmarksgjaldið s.s. vegna þess að þeir eru í hlutastarfi eða störfuðu á vinnumarkaði, aðeins hluta af árinu, stendur til boða að greiða mismuninn á greiddu félagsgjaldi á árinu og lágmarksgjaldinu enda ætli þeir sér  að vera  áfram á vinnumarkaði. Geri menn það hafa menn fullt kjörgengi í félaginu og teljast fullgildir félagsmenn. Eða eins og stendur í lögum félagsins;

Þeir félagsmenn, sem ekki hafa náð að greiða það lágmarksgjald, sem aðalfundur hefur ákveðið skulu færðir á aukafélagaskrá. Greiði þeir skuld sína vegna næstliðins starfsárs fyrir 31. mars, skulu þeir á ný færðir á skrá yfir fullgilda félagsmenn.“

Rétt er að taka skýrt fram að greiðslur til félagsmanna úr sjóðum félagsins s.s. sjúkra- orlofs eða starfsmenntasjóðum taka ávallt mið af greiðslum atvinnurekenda í þessa sjóði af viðkomandi félagsmönnum ekki lágmarksgjaldinu enda kjarasamningsbundið að atvinnurekendur greiði í þessa sjóði, ekki almennir félagsmenn. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda fyrirspurn á  netfangið kuti@framsyn.is.