Góðir grannar eru gulls ígildi

Það var notalegt að rölta niður Skólavörðustíginn á aðventunni. Við Skólavörðustíginn  er að finna flestar listaverkaverslanir, handverkshús, gallerí og túristabúðir borgarinnar sem trekkja að og færa líf á svæðið. Gatan lætur ekki mikið yfir sér þar sem hún liggur upp á Skólavörðuholtið með sinni fjölbreytilegu blöndu af húsum, nýjum og gömlum, litlum og stórum, fábrotnum og ríkmannlegum. Í þessum húsum þrífst margvísleg starfsemi.

Skólavörðuholtið hefur í gegnum tíðina verið eitt helsta athvarf ferðamanna sem koma til Reykjavíkur. Ég ákvað því að rölta um Skólavörðustiginn og drekka í mig sögu lands og þjóðar innan um aðra túrista enda komandi frá Húsavík. Þar sem ég staldraði við framan við eina vinsælustu túristabúðina í götunni heyrði ég á tal erlendra ferðamanna sem voru auðvitað að tala um „My home town“ Húsavík, „The Eurovision town“. Ég lagði við hlustir og fylltist réttlátu stolti er ég hleraði að þeir hefðu verið á Norðurlandi og átt ánægjulega dvöl bæði á Húsavík og Akureyri. Þeir voru greinilega heillaðir af svæðinu, mannlífinu og náttúrunni. Það hafði myndast löng biðröð við búðina þar sem fólk var að kaupa minjagripi frá heimsókninni norður í land. Hvað er eðlilegra en að Þingeyingur fyllist stolti við slíkar aðstæður og smelli sér í röðina til að kaupa minjagrip. Og hvað gerir maður líka ekki til að upplifa stemninguna sem ferðamaður í borg bleytunnar?  Það mátti heyra á tali fólks að seglar með myndum frá Húsavík og Akureyri væru vinsælastir. „Beautiful, beautiful“ ómaði allt í kringum mig: „This is Akureyri, a beautiful town” sagði glaðbeittur náungi sem var næstur á undan mér í röðinni og veifaði tveimur seglum í áttina að mér.

Mér var brugðið því þarna var farið heldur frjálslega með staðreyndir. Á öðrum seglinum var mynd frá Húsavíkurhöfn með íslenskra fánanum og nafni Akureyrar undir. Hinn var hins vegar alveg ekta, með Húsavíkurhöfn og fallegustu kirkju landsins. Greinilegt var að sá sem hannaði segulinn frá Akureyri var ekki alveg með staðhætti á hreinu nema hann hafi viljað markaðssetja Akureyri með mynd frá einum krúttlegasta stað landsins, Húsavík. Væntanlega er það skýringin. Já, það er alltaf gott að eiga góða nágranna, eða eins og skáldið sagði. Það eina sem Akureyringar hafa fram yfir Húsavík, eru góðir nágrannar.

Aðalsteinn Árni Baldursson

„My home town“ Húsavík, „The Eurovision town“.

Deila á