Góður gangur hjá PCC og bónuskerfi í vinnslu

Stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn í samstarfi við stjórnendur PCC á Bakka hafa síðustu mánuði unnið að því að þróa kaupaukakerfi í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka. Kaupaukakerfinu er ætlað að auka gæði framleiðslunnar, fyrirtækinu og starfsmönnum til góða. Vonir eru bundnar við að kaupaukakerfið og aukin framleiðsla muni færa starfsmönnum þó nokkra launahækkun umfram kjarasamningsbundnar launahækkanir. Fyrir eru launakjör starfsmanna ein þau bestu sem þekkjast á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, það er á almenna vinnumarkaðinum.

Rekstur PCC hefur gengið vel undanfarið og eru slegin framleiðslumet, nánast í hverjum mánuði. Eins og fram kom í fjölmiðlum á síðasta ári stöðvaði fyrirtækið framleiðslu tímabundið haustið 2021 fram á þetta ár vegna ástandsins á mörkuðunum. Framleiðslan er nú í fullum gangi og er PCC eitt mikilvægasta fyrirtækið á Norðurlandi. Í dag starfa hjá fyrirtækinu um 150 manns, flestir þeirra eru í Framsýn stéttarfélagi. Þá starfa fullt af undirverktökum hjá fyrirtækinu og tengdum þjónustufyrirtækjum. Því miður eru dæmi um að menn tali fyrirtækið niður, oft vegna mikillar vanþekkingar. Athygli vakti á dögunum þegar fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, hélt því fram að PCC væri nánast í andarslitrunum. Forstjóri PCC svaraði um hæl í fjölmiðlum og sagðir fréttir af andláti fyrirtækisins stórlega ýktar. Í samtali við Fréttablaðið kemur auk þess fram hjá forsvarsmönnum PCC að salan gangi vel og markaðirnir séu góðir. Verksmiðjan sé nú í hámarksafköstum og eigendur verksmiðjunnar séu ánægðir með stöðu mála enda fyrirtækið skilað hagnaði undanfarna mánuði. Veltan sé um tveir milljarðar á mánuði. Verð á hverju tonni af framleiðsluafurð fyrirtækisins hafi rokið úr 1.500 evrum í 7.000 evrur. Verði þetta þróunin geti svo farið svo að milljarða niðurfærslur á hlutabréfum gangi til baka að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Deila á