Jóhannes: „Þá á ég eftir tíuþúsundkall á mánuði“

Jóhannes Sigurjónsson blaðamaður segist hafa 10.000 krónur til umráða á mánuði eftir að hann var sviptur lífeyri frá TR vegna langdvalar á spítala. Þessa frétt er að finna í Fréttablaðinu. Myndina tók Aðalsteinn Árni Baldursson af Jóhannesi sem starfað hefur sem blaðamaður og ritstjóri á Húsavík í nokkra áratugi.

Tekjulágir ellilífeyrisþegar sem dvelja meira en 180 daga á sjúkrahúsi geta átt von á sviptingu lífeyris fyrir utan vasafé. Jóhannes Sigurjónsson, blaðamaður frá Húsavík sem hefur þurft að dvelja á Sjúkrahúsinu á Akureyri í meira en hálft ár vegna veikinda sinna, lenti í skerðingu lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Litið er á sem hann hafi með sjúkrahúsdvölinni misst rétt sinn til ellilífeyris.

„Mér finnst skrýtið að ef veikindaréttur er fyrir hendi og þú ert 66 ára gamall og lendir í langvarandi veikindum og færð að vera á spítala þá sé dvölin frí. Ef þú ert 67 ára með góðar tekjur þá er dvölin frí. En ef þú ert 67 ára eins og ég, með lífeyri, sem tekjulágur þá þarftu að borga fyrir sjúkrahúsvistina, því þá ertu sviptur þessum tekjum,“ segir Jóhannes.

Hann segir að áður en dvöl hans á spítalanum náði 180 dögum hafi hann fengið útborgað um 220.000 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði og frá Tyggingastofnun. Mest komi frá TR, því hann sé fátækur. „Sjúkrahúsið ætlar nú að taka af mér hundrað og sjötíu þúsund krónur. Það fara fjörutíu þúsund hjá mér í húsnæði úti í bæ. Þá á ég eftir tíuþúsundkall á mánuði.“

Jóhannes segist hafa lent í skerðingunni á sama tíma og hann horfði á fundi í sjónvarpi með öllum stjórnmálaforingjum landsins um að allir ættu rétt á ókeypis sjúkrahúsvist. Guðrún Sigurjónsdóttir, systir Jóhannesar, hefur barist fyrir bróður sinn ásamt fleirum í fjölskyldunni, enda á hann sjálfur erfitt um vik í þeim efnum vegna veikindanna. Guðrún segir að líta megi svo á sem tekjulágir ellilífeyrisþegar „borgi“ fyrir sjúkrahúsvist sína með tekjumissinum. Sjúkrahúsvistin sé þá ekki ókeypis fyrir alla sjúklinga. Hinir efnameiri sem ekki fái tekjur frá TR geti dvalið á sjúkrahúsi eftir 180 daga án tekjumissis, en hinir tekjulágu geti lent í að lítið verði eftir af þeirra tekjum eftir skerðingu til að standa undir eigin rekstrarskuldbindingum.

„Maður sér ákveðið misrétti. Við báðum um endurskoðun hjá Tryggingastofnun en fengum synjun. Ætli næsti áfangastaður verði ekki úrskurðarnefnd velferðarmála,“ segir Guðrún.

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur í lífeyrismálum, þekkir ekki þetta tiltekna mál, en bendir á að ef eldri borgari fari inn á hjúkrunarheimili sem varanlegur íbúi gangi lífeyrisgreiðslur hans til viðkomandi hjúkrunar­heimilis og hann fái naumt skammt­aða vasapeninga í staðinn.

„Það er skýrt í lögum að TR er heimilt að fella niður lífeyrisgreiðslur eftir sex mánaða dvöl á sjúkrahúsi, en þetta er mjög umdeilanlegt ákvæði og í raun óréttlátt. Sérstaklega af því að það rekst á sjúkratryggingaréttinn sem aðrir njóta en þeir sem stóla á greiðslur frá TR. Það er því full ástæða til að löggjafinn taki þetta til endurskoðunar,“ segir Stefán.

Samkvæmt símsvara hjá Tryggingastofnun var starfsdagur starfsmanna í gær og engin leið að ná tali af sérfræðingum vegna máls Jóhannesar.

Frétt: Fréttablaðið

Myndir: Aðalsteinn Árni Baldursson

Deila á