Bjartsýnustu spár Vinnumálastofnunar að rætast

Engar tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í síðasta mánuði. Stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, sögðu þó upp 39 starfsmönnum.

„Sá fjöldi var ekki nægilegur til þess að flokkast undir lögin um hópuppsagnir. Það þurfti ekki að tilkynna þessar uppsagnir til okkar,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Hún segir að hópuppsögnum hafi fækkað undanfarið. „Við sjáum mikinn mun á því núna undanfarna mánuði hvað hefur fækkað hópuppsögnum enda er atvinnulífið að taka vel við sér,“ segir Unnur. „Atvinnuleysi hefur farið mjög hratt minnkandi síðastliðna fjóra til fimm mánuði þannig að við getum glaðst yfir því,“ segir Unnur.

Er staðan betri en þið höfðuð gert ráð fyrir?
„Já, ef eitthvað er. Þetta eru svona bjartsýnustu spár sem eru að ganga eftir sem er náttúrulega mjög ánægjulegt,“ segir Unnur. Hún segir uppgang ferðaþjónustunnar skipta miklu máli í því samhengi.

„Þetta fylgir algjörlega faraldrinum. Um leið og það er losað um allt og eftir að ferðalög fóru að fara í gang aftur þá gerðist þetta mjög hratt. Þessi viðspyrna var mjög hröð og góð,“ segir Unnur.

Heimild: ruv.is

Deila á