Félagsmönnum fækkaði vegna Covid

Alls greiddu 2.644 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2020 en greiðandi félagar voru 3.320 árið 2019. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fækkaði verulega milli ára sem á sínar skýringar og tengist heimsfaraldrinum, Covid-19. Fækkun félagsmanna átti sér sérstaklega stað í ferðaþjónustunni enda hrundi sú atvinnugrein á árinu 2020. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.514 karlar og 1.130 konur sem skiptast þannig, konur eru 43% og karlar 57% félagsmanna.  Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 264, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 2.908 þann 31. desember 2020. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum.

Deila á