Ótrúlegar skerðingar á lífeyrisréttindum til umræðu á þingi

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær. Meðal þess sem var til umræðu var frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um lífeyrissjóðsmál (700. mál).

Megn óánægja kom fram meðal fundarmanna með ákveðna þætti í frumvarpinu. Í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamningana vorið 2019 eru með frumvarpinu lagðar til breytingar sem lúta að lögfestingu 15,5% iðgjalds, heimildar til að skipta lögbundnu iðgjaldi þannig að allt að 3,5,% geti farið til öflunar réttinda í tilgreindri séreign og varanlegum heimildum til að ráðstafa séreign til húsnæðiskaupa og til að lækka höfuðstól og afborganir lána. Stjórn Framsýnar gerir ekki athugasemdir við þennan hluta frumvarpsins.

Hins vegar er verið að læða inn í frumvarpið öðrum breytingum sem verkalýðshreyfingin hefur ekki verið höfð til samráðs um og skerða lífeyrisrétt almennings og þar með kjör vinnandi fólks. Af greinargerð má engu að síður skilja að fullt samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna en það er alvarlegt mál að halda slíku fram þegar reyndin er önnur. Þar með brýtur fjármálaráðherra blað í sögunni með því að fara fram með tillögur um breytingar á lífeyriskerfinu án samráðs við fulltrúa vinnandi fólks en lætur í veðri vaka að svo hafi verið.  Stjórn Framsýnar mótmælir harðlega vinnubrögðum sem þessum og eftirfarandi atriðum:

Fyrst ber að nefna hækkun lífeyrisgreiðslualdurs úr 16 árum í 18 ár sem gengur í berhögg við kjarasamning ASÍ og SA um lífeyrismál. Fyrir þessari aldursmismunun eru engin haldbær rök. Þessum áformum fékk verkalýðshreyfingin fyrst veður af þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi.

Í öðru lagi er lagt til að breyta verðbótum lífeyrisréttinda þannig að þær reiknast árlega í stað mánaðarlega. Þessi breyting kann að láta lítið yfir sér en kann að hafa þau áhrif á lífeyrisréttindi fólks að þau taki ekki leiðréttingum vegna verðbólgu jafnóðum. Frumvarpið tekur ekki af vafa um hvort slíkt yrði leiðrétt eftir á eða ekki.

Í þriðja lagi er veitt áframhaldandi undanþága í lögum frá 15,5% lífeyrisframlagi með ótímasettu bráðabirgðaákvæði. Kemur þetta til vegna lífeyrismála sjómanna sem enn er ósamið um og er framlag í lífeyrissjóði þeirra aðeins 12%. Framsýn telur rétt að sett séu tímamörk á bráðabirgðaákvæðið, svo sem eðlilegt er, þannig að sjómönnum og viðsemjendum þeirra gefst kost á að ganga frá kjarasamningi þar sem sjómenn njóta sömu lífeyrisréttinda og annað launafólk.

Framsýn skorar á fjármálaráðherra að taka upp símann og heyra í verkalýðshreyfingunni um áherslur hreyfingarinnar varðandi endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Félagi Bjarni, svona vinnubrögð eru ekki í boði.

Deila á