Vinnutímabreytingar hjá starfsfólki ríkisins og sveitarfélaga – kynning í boði

Um næstu áramót taka gildi nýjar reglur varðandi vinnutíma starfsfólks hjá ríkisstofnunum og stofnunum sveitarfélaga. Frá og með 1. janúar kemur til 13 mín stytting á dag m.v. við fullt starf. Taki menn ákvörðun um að fella niður neysluhlé getur styttingin orðið allt að 4 tímar á viku hjá starfsmönnum í fullu starfi og hlutfallslega miðað við starfshlutfall viðkomandi. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir starfsmenn. Afar mikilvægt er að þeir kynni sér vel væntanlegar breytingar og hvernig þær eiga að virka. Framsýn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa þegar hafið kynningu á breytingunum meðal starfsmanna á þeim stofnunum sem samkomulagið nær yfir, sem eru eins og fram kemur í fréttinni, til starfsmanna á ríkisstofnunum og stofnunum sveitarfélaga. Félagsmönnum er velkomið að hafa samband og óska eftir kynningu á vinnutímastyttingunni sem á að vinnast hjá hverri stofnun fyrir sig og er á forræði stjórnenda og starfsmanna. Hér eru nokkrar gagnlegar slóðir fyrir þá sem vilja kynna sér vinnutímabreytingarnar.

https://betrivinnutimi.is/dagvinna/

https://betrivinnutimi.is/verkfaerakista/

https://reykjavik.is/sites/default/files/starfsumsoknir/leidbeiningabaeklingur_utgefinn_25.09.20.pdf

 

Trúnaðarmenn starfsmanna á Leikskólanum Grænuvöllum fengu kynningu í morgun á vinnutímabreytingunum um áramót, það er Dóra Fjóla og Gunnþórunn. Á morgun eru síðan væntanlegir fulltrúar frá starfsmönnum Borgarhólsskóla á Húsavík og eftir helgina verður kynning fyrir starfsmenn sem starfa hjá Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík. Óski félagsmenn Framsýnar og Starfsmannafélags Húsavíkur eftir kynningu á breytingunum er þeim velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Deila á