Pirringur í atvinnurekendum

Fram kom í fjölmiðlum fyrir helgina að illa gangi að manna sláturhúsin í haust þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á Íslandi. Þó nokkuð er um að atvinnurekendur hafi haft samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík og komið óánægju sinni á framfæri við stéttarfélögin. Forsvarsmenn sláturhúsanna á svæðinu, það er á Húsavík og á Kópaskeri, eru meðal þeirra fyrirtækja sem haft hafa samband við skrifstofuna í leit að starfsfólki til starfa í haust. Það er ekki bara að vanti fólk til starfa við slátrun heldur hefur einnig gengið illa að manna störf í ferðaþjónustu og fiskvinnslu. Dæmi eru um að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi gefist upp við að auglýsa eftir starfsfólki þar sem engir hafi sótt um störfin. Fyrirtækin hafa því þurft að leita út fyrir landssteinanna í leit að starfsfólki. Vissulega vekur þetta töluverða athygli á sama tíma og atvinnuleysi á Íslandi er í sögulegu hámarki. Að sjálfsögðu á enginn að vera á atvinnuleysisbótum bjóðist honum starf við sitt hæfi. Ekki síst í ljósi þessa er mikilvægt að efla starfsemi Vinnumálastofnunnar sem ætlað er meðal annars að miðla fólki í vinnu. Núverandi ástand er ekki boðlegt atvinnulífinu. Undir það tekur Framsýn stéttarfélag en málið var til umræðu á stjórnarfundi félagsins á fimmtudaginn.

 

Deila á