Skiptaverð hækkar þann 1. maí 2020

Meðalverð á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði hefur lækkað verulega að undanförnu vegna covid-19 faraldursins. Þetta olíuverð er notað sem viðmiðun í kjarasamningi sjómanna til að ákvarða skiptaverð til sjómanna.

Fyrir tímabilið frá og með 21. mars til og með 20. apríl síðastliðinn var meðalverð á olíunni sem notað er til viðmiðunar 262,20 $/tonn og hafði þá lækkað úr 379,96 $/tonn frá síðasta viðmiðunartímabili.

Þetta þýðir að skiptaverð, þegar ísaður afli er seldur skyldum aðila, hækkar úr 70,5% í 75,5% af aflaverðmæti skipsins. Þegar ísaður afli er seldur óskyldum aðila eða á fiskmarkaði hækkar skiptaverðið úr 70% í 75% af aflaverðmætinu (uppboðskostnaður á fiskmörkuðunum dreginn frá áður en skiptaverð er reiknað).

Á frystitogurunum sem selja með fob söluskilmálun hækkar skiptaverðið úr 72% í 74,5% af fob verðmætinu og ef aflinn er seldur með cif söluskilmálum hækkar skiptaverðið úr 66,5% í 69% af cif verðmætinu.

Á skipum sem frysta rækju um borð hækkar skiptaverðið úr 69% í 71,5% af fob verðmætinu  og úr 63,5% í 66% af cif verðmætinu.

Skiptaverð þegar siglt er með uppsjávarfisk á erlendan markað er óbreytt 70% af söluvirði aflans. Þegar siglt er með ferkan fisk á erlendan markað er skiptaverðið einnig óbreytt eða 66% af heildarsöluverðmæti aflans.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Sjá nánar í töflu hér á heimasíðunni um skiptaverð í einstökum mánuðum.

Deila á