Klofningur innan ASÍ

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum kom til ágreingins innan miðstjórnar ASÍ um hvaða leið ætti að fara varðandi óskir Samtaka atvinnulífsins um aðkomu aðildarfélaga sambandsins að stöðunni en fyrir liggur að mörg fyrirtæki á almenna vinnumarkaðinum eru í slæmri stöðu og hafa því óskað eftir viðræðum við verkalýðshreyfinguna um tímabundnar breytingar á gildandi kjarasamningi.

Helst hefur verið talað um að fara svokallaða lífeyrissjóðsleið, það er að heimila tímabundna lækkun á mótframlagi atvinnurekenda úr 11,5% í 8%. Í öðru lagi hefur verið talað um að fresta boðuðum launahækkunum 1. apríl um nokkra mánuði og í þriðja lagi hafa menn verið þeirrar skoðunar að verkalýðshreyfingin ætti ekki að hlusta á áhyggjur atvinnulífsins varðandi rekstrarumhverfi fyrirtækja. Meirihluti miðstjórnar samþykkti eftir að hafa farið nokkra hringi í málinu, eins og einn ágætur maður orðaði það, að hafna þessum leiðum. Það er að gefa eftir tímabundna frestun á launahækkunum og/eða greiðslum atvinnurekanda í lífeyrissjóði starfsmanna.

Til að gera langa sögu stutta þá varð alvarlegur klofningur innan miðstjórnar ASÍ um hvernig best væri að takast á við stöðuna og beiðni Samtaka atvinnulífsins um tímabundna eftirgjöf verkalýðshreyfingarinnar meðan Covid 19 veiran væri að ganga yfir.

Vilhjálmur Birgisson sagði skilið við miðstjórn með því að segja af sér sem fyrsti varaforseti sambandsins og formaður og varaformaður VR, sem sitja einnig í miðstjórn ASÍ, notuðu tækifærið og sögðu sömuleiðis skilið við miðstjórn vegna óánægju með nálgun forseta og annarra kjörinna fulltrúa í miðstjórn sambandsins varðandi óskir Samtaka atvinnulífsins um breytingar á gildandi kjarasamningi.

Innan Framsýnar er virkur hópur félagsmanna sem skipaður er um 50 fulltrúum frá flestum fyrirtækjum á félagssvæðinu, ekki síst frá stærri fyrirtækjum. Hópurinn var virkjaður í gær í leynilega skoðanakönnun um stöðuna en hópurinn er að mestu skipaður trúnaðarmönnum starfsmanna og endurspeglar vel almennar skoðanir félagsmanna sem telja hátt í 4000 félagsmenn.

Spurt var um leiðir, hvort rétt væri að bregðast við óskum Samtaka atvinnulífsins um tímabundnar tilslakanir eða ekki. Boðið var upp á þrjá valkosti.

  • Verða ekki við óskum Samtaka atvinnulífsins um breytingar á kjörum félagsmanna aðildarfélaga ASÍ þrátt fyrir stöðuna í þjóðfélaginu?
  • Svara kallinu með því að fresta tímabundið boðuðum launahækkunum sem koma eiga til framkvæmda 1. apríl?
  • Í stað þess að samþykkja frestun á launahækkunum 1. apríl verði heimilað tímabundið að færa mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna úr 11,5% í 8%?

Niðurstaðan er skýr:

Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnuninni var á því að leið 3 kæmi best út fyrir félagsmenn eða um 78% svarenda, það er að heimila tímabundna lækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóði. 19% voru á því að fresta ætti tímabundið launahækkunum sem koma eiga til framkvæmda 1. apríl. Það sem vekur hins vegar töluverða athygli eða ekki, er að aðeins 3% svarenda taldi að verkalýðshreyfinginn ætti að halda áætlun og hafna kröfum um breytingar á launahækkunum eða breytingum á lífeyrissjóðsframlögum atvinnurekanda í lífeyrissjóði.

Niðurstaðan úr þessari óformlegu könnun segir okkur að 97% félagsmanna eru tilbúnir að leggja á sig tímabundnar skerðingar enda verði allir launþegar í landinu klárir að leggjast saman á árannar með það að markmiði að sigla þjóðarskútunni í örugga höfn og verðlagi og öðrum þáttum sem áhrif hefur á afkomu fólks verði haldið í lágmarki.

Að mati félagsmanna Framsýnar er ekki pláss fyrir farþega, það verði allir að leggja sitt að mörkum við þessar aðstæður, ekki bara verkafólk.

 

 

Deila á