Guðmundur Vilhjálms tekur við formennsku í Framsýn stéttarfélagi

Ekki er ólíklegt að þetta séu tíðindi ársins ef ekki síðasta áratugar. Aðalsteinn Árni Baldursson sem verið hefur formaður Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur lengur en nokkur annar maður í þessari veröld, hefur látið af störfum. Stjórn Framsýnar gekk frá starfslokum við hann í gærkvöldi eftir langan og strangan 24 tíma samningafund. Eins og kunnugt er, þá er Aðalsteinn Árni mikill kröfuhundur og krafðist hann þess að fá feitan starfslokasamning. Sagan segir að samningurinn sé í takt við starfslokasamning fyrrverandi Ríkislögreglustjóra. Rétt er að taka fram að algjör trúnaður ríkir um samninginn og því ekki opinber.

Félagið verður ekki lengi formannslaust þar sem þegar hefur verið samið við Guðmund Vilhjálmsson framkvæmdastjóra Garðvíkur og formanns SANA, sem eru heildarsamtök atvinnurekanda á norðausturhorninu, að taka við keflinu og leiða Þingeyskan verkalýð áfram á braut kjara og jafnréttis. Samningar tókust í nótt og hóf Guðmundur störf í morgun kl. 08:15 nokkuð hress eftir erfiða nótt. Það er eftir undirritun ráðningarsamnings sem er ótímabundinn. Hvorugur aðili getur sagt upp samningnum sem Guðmundur sagði fagnaðarefni enda færi vel um hann í stól formanns Framsýnar. Hann sagði þó þörf á því að endurnýja tölvuna og kaupa stærri tölvuskjá, helst tvo. Núverandi græjur væru svo gamaldags að þær ættu best heima á Byggðasafni Þingeyinga og hló um leið og hann hristi höfuðið yfir þessum úrelta tækjabúnaði.

Guðmundur Vilhjálmsson er 53 ára gamall Langnesingur og er fæddur og uppalinn að Syðra-Lóni á Langanesi.  Guðmundur er Vélfræðingur að mennt, lauk námi frá Vélskóla Íslands 1994 og fékk meistararéttindi í Vélsmíði árið 2001.  Guðmundur hefur jafnframt tvær útskriftir úr Háskólanum í Reykjavík, bæði á vélasviði og rekstrarsviði auk byggingastjóraréttinda. Eiginkona Guðmundar er Jóhanna Sigríður Logadóttir og eiga þau hjónin tvo syni, þá Friðrik Aðalgeir 14 ára og Loga Vilhjálm 12 ára. Starfsferill Guðmundar hefur lengst af verið tengdur sjávarútvegi, meðal annars hjá Samherja hf, Hraðfrystistöð Þórshafnar, Ísfélagi Vestmannaeyja og síðustu átta ár Guðmundar HB Granda og var Guðmundur þar í átta ár vélstjóri á Lundey NS. Síðustu fjögur ár hefur Guðmundur rekið Garðvík ehf á Húsavík.

Í samtali við heimasíðuna sagðist Guðmundur virkilega ánægður með að takast á við ný verkefni. Einhverjir hefðu haft að orði, hvort það væri ekki óeðlilegt að hann tæki við stéttarfélagi verandi einn af stærstu og öflugustu atvinnurekendum á Norðurlandi. Hann sagðist telja að menn þyrftu ekki að óttast það eða hafa óþarfa áhyggjur, hagsmunir fyrirtækja og starfsmanna færu vel saman og best væri að hafa öll eggin í sömu körfu. Það væri ekki spurning í hans huga, það er að hafa jafnan hitta á öllum eggjunum. Þannig væri hægt að skapa aukin tækifæri fyrir alla og unga út kjarabótum á svæðinu. Menn gætu hins vegar velt fyrir sér hvort hænan eða eggið hafi komið á undan, það væri umhugsunarefni. Hann vildi einnig taka fram að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem framkvæmdastóri fyrirtækis væri jafnframt formaður í verkalýðsfélagi. Sá ágæti maður Kristján Ásgeirsson hefði á sínum tíma bæði verið formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og Útgerðarfyrirtækisins Höfða. Á þeim tíma hefði það verið talið afar eðlilegt og rúmlega það. Það væri full ástæða til að endurvekja þessa góðu tíma. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til að þakka Aðalsteini Árna fyrir hans störf í þágu Framsýnar þar sem hann hefði ekki unnið neina sérstaka sigra heldur verið með allt niður um sig eins og formaður Verkalýðsfélagsins á Akranesi hefði haldið fram í Boðberanum, málgagni KÞ, á dögunum.

Ekki náðst í Aðalstein Árna við gerð þessarar fréttar til að bera undir hann þessi óvæntu tíðindi. Sagan segir að hann ætli að snúa sér alfarið að fjárrækt eða jafnvel svínarækt en Aðalsteinn er búfræðingur að mennt og heldur nokkrar kindur, dúfur, hænur og eina kanínu í Grobbholti.

Við loka frágang fréttarinnar, rétt í þessu,  náðist þessi óvænta mynd af fyrrverandi formanni Framsýnar en sauðburður hófst í Grobbholti í morgun. Foreldrar ásamt börnum eru velkomin í heimsókn í dag milli kl. 17:00 og 19:00 til að sjá nýfædd lömb og annan búfénað og villidýr. Hann sagði alla velkomna á þessum tímamótum, það væri nefnilega líf eftir Framsýn og vildi ekki ræða málið frekar enda sauðburður í fullum gangi og rúmlega það hjá þessum fjórum ám sem bera í Grobbholti þetta vorið.

Deila á