Ummæli fyrrverandi formanns VM ámælisverð 

Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar fyrir helgina vakti einn fundarmanna máls á ummælum Guðmundar Ragnarssonar fyrrverandi formanns VM, en hann hefur undanfarið tjáð sig í fjölmiðlum um nýju verkalýðshreyfinguna. Þar gerir hann m.a. lítið úr baráttu Eflingar fyrir bættum kjörum félagsmanna sem starfa hjá Reykjavíkurborg á lægstu töxtum og telur ASÍ ekki vera á vetur setjandi eftir hallarbyltinguna sem gerð var á síðasta þingi sambandsins þegar nýtt fólk var kjörið til forystustarfa. Guðmundur hefur fram undir þetta setið sem formaður VM, en var felldur af sínum félagsmönnum í síðasta formannskjöri innan félagsins vegna óánægju með hans störf. Við það missti hann líka áhrif innan ASÍ. Greinilegt er að hann kennir öðrum um sínar óvinsældir innan verkalýðshreyfingarinnar.  Fundarmönnum blöskraði þessi framsetning verkalýðsforkólfsins fyrrverandi og fannst hann leggjast lágt að tala baráttu verkafólks niður með þessum hætti. Rætt var um mikilvægi samstöðu  í málefnum verkafólks og fram kom að Framsýn muni hér eftir sem hingað til sýna Eflingu stuðning í þeirra baráttu fyrir bættum kjörum verkafólks.

 

Deila á