Félagsmenn Framsýnar fá hækkun kr. 125.000 – á við um starfsmenn sveitarfélaga

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndir Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar – stéttarfélags hafa undirritað samkomulag um endurskoðun viðræðuáætlunar aðila þar sem stefnt er að gerð nýs kjarasamnings fyrir 20. október næstkomandi. Jafnframt drógu SGS og Efling – stéttarfélag til baka vísun kjaradeilu aðila til ríkissáttasemjara. Rétt er að taka fram að Framsýn á aðild að þessum samningi.

Þann 1. október 2019 verður hverjum starfsmanni greidd innágreiðsla á væntanlegan kjarasamning að upphæð 125.000 kr. miðað við fullt starf hjá sveitarfélagi. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. september 2019.  Starfsmenn í fæðingarorlofi og tímavinnufólk fær innágreiðsluna.

Það er sameiginlegur skilningur aðila að ofangreind fjárhæð sé hluti fyrirhugaðra launabreytinga á gildistíma hinna endurnýjuðu kjarasamninga aðila og verði metinn sem hluti af kostnaðaráhrifum þeirra.

 

Deila á