Skútustaðahreppur ekki svarað erindi Framsýnar

Því miður hefur Skútustaðahreppur ekki séð ástæðu til að svara erindi Framsýnar stéttarfélags frá 2. júlí 2019 varðandi afstöðu sveitarfélagsins til tilmæla Framsýnar um að sveitarfélagið greiði starfsmönnum sveitarfélagsins sem jafnframt eru félagsmenn í Framsýn eingreiðslu/innágreiðslu upp á kr. 105.000 miðað við fullt starf meðan ósamið er.

Það er til samræmis við ákvörðun Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin greiði starfsmönnum stéttarfélaga/landssambanda, sem eru með lausa samninga, eingreiðslu kr. 105.000,-. Það er öðrum en félagsmönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands.

Sveitarfélögum á félagssvæði Framsýnar var gefin frestur til að svara erindinu til 11. júlí 2019. Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur hafa þegar svarað erindinu.

Ekki þarf að taka fram að um mjög alvarlega mismunun er um að ræða meðal starfsmanna sveitarfélaga, þar sem þeim sem eru á lægstu laununum er haldið eftir meðan aðrir starfsmenn með lausa samninga fá þessa eingreiðslu. Svona vinnubrögð eru reyndar fordæmalaus sem betur fer.

Dæmi eru um að sveitarfélög hafi hunsað tilmæli Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og greitt starfsmönnum til jafns við aðra starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga. Umrædd sveitarfélög bera greinilega virðingu fyrir störfum þessara starfsmanna í þágu sveitarfélaganna. Í þeim flokki er Tjörneshreppur.

(Frétt uppfærð. Rétt í þessu 7. ágúst var að berast póstur frá Skútustaðahreppi þar sem fram kemur að beiðni Framsýnar verði tekin fyrir á næsta sveitarstjórnarfundi síðar í þessum mánuði)

 

Deila á