Afstaða Norðurþings og Þingeyjarsveitar valda vonbrigðum – Tjörneshreppur stendur upp úr

Framsýn hefur borist svar við erindi félagsins frá Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp varðandi áskorun um að sveitarfélögin mismuni ekki starfsmönnum varðandi launahækkanir eftir stéttarfélögum. Það eru mikil vonbyrgði að Þingeyjarsveit og Norðurþing telja sig ekki geta brugðist við erindi Framsýnar með jöfnuði er snertir hækkanir til starfsmanna sveitarfélaganna. Með sinni afstöðu skrifa þau upp á að það sé eðlilegt að þeir sem eru á lægstu laununum hjá sveitarfélögunum sitji einir eftir og fái ekki eingreiðslu í ágúst upp á kr. 105.000 meðan ósamið er. Tjörneshreppur stendur hins vegar upp úr og í svari til Framsýnar kemur fram að þeir ætli að hækka þá starfsmenn hreppsins sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga með sambærilegum hætti og ákveðið hefur verið að gera gagnvart félagsmönnum annarra stéttarfélaga/sambanda en Starfsgreinasambands Íslands. Skútustaðahreppur hefur hins vegar ekki talið ástæðu til að svara erindi Framsýnar fremur en stjórn Hvamms, en sem komið er. Hér má lesa þau svör sem hafa borist.

 Norðurþing svarar:

Eftirfarandi var bókað á 295. Fundi byggðarráðs Norðurþings í morgun;

„Fyrir byggðarráði liggur bréf frá Framsýn stéttarfélagi hvar vakin er athygli á þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum. Kjaraviðræður hafa staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019, án niðurstöðu. Í bréfinu kemur fram að mikið ber á milli og vísaði Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð Framsýnar, deilunni til ríkissáttasemjara þann 28. maí sl. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður 21. ágúst n.k. hjá ríkissáttasemjara. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og stéttarfélög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september. Samið hefur verið við þessa aðila um eingreiðlsu/innágreiðslu upp á kr. 105.000 miðað við fullt starf. Samninganefnd sveitarfélaga hefur neitað að slíkt tilboð standi til boða fyrir aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins þar sem búið væri að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara. Þrátt fyrir þessa afstöðu samninganefndarinnar vill Framsýn fara þess á leit við sveitarfélögin á félagssvæðinu og Hvamm heimili aldraðra að þau greiði starfsmönnum sem starfa eftir kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands viðlíka innágreiðslu of að ofan greinir, þann 1. ágúst n.k. m.v. fullt starf.

Byggðarráð þakkar Framsýn stéttarfélagi erindið og lýsir yfir áhyggjum sínum yfir stöðu kjaraviðræðna Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem vísuðu deilunni til Ríkissáttasemjara í vor. Það er ljóst að staðan er mjög viðkvæm á þessum tímapunkti og vert að árétta að sveitarfélagið Norðurþing veitti samninganefndinni fullnaðarumboð til samninga fyrir sína hönd þann 11. desember 2018, líkt og önnur sveitarfélög gerðu sömuleiðis. Það þýðir að eftir að umboðið var veitt er sveitarfélaginu ekki heimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð. Sveitarfélagið skuldbatt sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins. Byggðarráð Norðurþings hafnar því óskum Framsýnar um að stíga inn í kjaraviðræðurnar með þeim hætti sem vænst er. Það er einlæg von byggðarráðs að samningsaðilar nái saman og leysi þá deilu sem uppi er sem fyrst.“

Þingeyjarsveit svarar:

Framsýn: Staða í kjaraviðræðum SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga – 1907001
Lagt fram bréf frá Framsýn, dags. 2.07.2019 þar sem vakin er athygli á þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum.
Viðræður hafa staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019, án árangurs.
Samninganefnd Sambands Íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og stéttarfélög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september. Samið hefur verið við þessa aðila um eingreiðslu/innágreiðslu upp á kr. 105.000 miðað við fullt starf. Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir Starfsgreinasambandið, hvort slíkt tilboð stæði ekki fyrir félagsmönnum aðildarfélaga sambandsins einnig til boða. Formaður samninganefndar sveitarfélaga neitaði því þar sem Starfsgreinasambandið væri búið að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara.
Framsýn fer þess á leit við sveitarfélögin á félagssvæðinu og Hvammi, heimili aldraðra að þau greiði starfsmönnum sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands slíka innágreiðslu 1. ágúst n.k. það er að upphæð kr. 105.000 m.v. fullt starf þann 1. júlí 2019 og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.
Sveitarstjórn lýsir áhyggjum sínum yfir stöðunni og harmar að viðræður hafi enn ekki borið árangur. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga er með samningaumboðið fyrir hönd sveitarfélagsins, sbr. bókun sveitarstjórnar þann 24. janúar 2019 og því getur sveitarstjórn ekki orðið við erindinu.

Þetta tilkynnist hér með.

Tjörneshreppur svarar:

Hér með staðfestist að Tjörneshreppur mun greiða til meðlima SGS  sambærilega eingreiðslu/innágreiðslu í ágúst og starfsmenn annarra stéttarfélaga/sambanda sem eru með lausa samninga eiga að fá í ágúst.

Aðalsteinn J. Halldórsson
Oddviti
Tjörneshreppur

 

 

 

Deila á