Af hverju fjölmiðlabann?

Félagsmenn Framsýnar hafa verið að kalla eftir betri upplýsingum um gang kjaraviðræðna Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins en samningar hafa nú verið lausir frá síðustu áramótum. Um næstu mánaðamót losna svo kjarasamningar Starfsgreinasambandsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisjóðs. Innan Framsýnar falla yfir þrjú þúsund félagsmenn undir þessa þrjá kjarasamninga.

Rétt er að taka fram að ríkissáttasemjari setti fjölmiðlabann á samningsaðila og því hefur aðilum ekki verið heimilt að tjá sig um stöðuna í yfirstandandi kjaraviðræðum. Framsýn þykir leitt að geta ekki orðið við kröfum félagsmanna og upplýst þá enda félagið þekkt fyrir gott upplýsingaflæði til félagsmanna í gegnum heimasíðu félagsins auk þess sem fjölmiðlar sækjast eftir að fjalla um skoðanir Framsýnar til kjaramála og tengdra málefna.

Ekki er óalgengt að um 600 manns fari daglega inn á heimasíðuna til að fylgjast með starfsemi félagsins og framvindu mála í kjaraviðræðum samningsaðila. Reyndar er athyglisvert að ríkissáttasemjari telji ástæðu til þess að hefta tjáningarfrelsi samningsaðila þegar ekki sést til lands með undirskrift kjarasamnings. Ekki er óalgengt að sett sé fjölmiðlabann í lok kjaraviðræðna, það er þegar ljóst er að hlutirnir eru að ganga upp og vöfflubros færist yfir samningsaðila. Því miður er staðan ekki þannig í dag og því óeðlilegt að hefta málfrelsi samningsaðila sem eru talsmenn þúsunda félagsmanna sem eru með lausa kjarasamninga um þessar mundir eða eins og einn félagsmaður í Framsýn orðaði það við formann félagsins; Hvað er að þér maður, ert þú búinn að missa málið, af hverju ert þú hættur að tjá þig um baráttunna fyrir bættum kjörum okkur til handa? Því er til að svara, það er fjölmiðlabann.

Deila á