Samstaða í verki hjá Torfa

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga var mik­ill bar­áttu­hug­ur í þeim fjölmörgu kon­um sem komu saman víða um land til­efni af kvennafrídegin­um þann 24. október. En það voru ekki eingöngu konur sem stóðu vaktina daginn þann. Í það minnsta á Arnarhóli blönduðu karlmenn sér í hópinn og sýndu konum samstöðu og er það vel.

Þeirra á meðal var Torfi nokkur Aðalsteinsson, baráttuglaður bárðdælingur sem þekktur er fyrir að hafa sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum og vera ófeiminn við að láta þær í ljósi. Torfi var staddur í Reykjavík á kvennafrídaginn, en hann sat sem fulltrúi Framsýnar á 43. þingi ASÍ sem haldið var dagana 24.-26. október. Hlé var gert á þingstörfum kl.14.55 í tilefni dagsins og konur streymdu á Arnarhól, þar á meðal fulltrúar Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar. Torfi stóð að sjálfsögðu með sínum konum og þrátt fyrir kuldaþræsing í höfuðborginni stóð karlinn keikur á Arnarhóli og mótmælti launamun kynjanna eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Torfi á ekki langt að sækja baráttugleðina, en til gamans má geta þess að móðuramma Torfa var Halldóra Ólöf Guðmundsdóttir, herská baráttukona sem barðist fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu á fyrrihluta síðustu aldar. Halldóra lærði netagerð og var formaður Nótar félags netagerðarmanna um tíma, fyrsta og sennilega eina konan sem gengt hefur því embætti hér á landi. Halldóra barðist ötullega fyrir því að konur sem störfuðu við netagerð nytu sömu launa og karlar. Þá baráttu leiddi hún til sigurs árið 1946 og voru konurnar í Nót þær fyrstu á landinu sem ári náðu launajafnrétti á við karla.

Síðan eru liðin 72 ár, sem er kannski ekki langur tími í sögu þjóðar, en enn vantar talsvert uppá kynjajafnrétti okkar Íslendinga. Baráttukonur eins og Halldóra sem risu upp gegn misskiptingu og óréttlæti í árdaga verkalýðshreyfingarinnar voru að mörgum taldar frekar og yfirgangssamar, bæði af körlum og ekki síður eigin kynsystrum. Sú hugsun er sem betur fer á undanhaldi og í dag eru konur frekar metnar af verðleikum, rétt eins og aðrir menn. Konur munu enda halda baráttunni áfram ótrauðar og það fer einkar vel á því að hugsandi menn eins og Torfi haldi uppi merki þeirra sem lönduðu fyrstu sigrunum í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Með því einmitt að styðja konur í orði og í verki í baráttu þeirra til jafnréttis – til betra samfélags.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=215556&pageId=2774169&lang=is&q=Halldóra Halldóra Guðmundsdóttir

Mikið fjölmenni var samankomið á Arnarhóli í tilefni af kvennafrídeginum

Deila á