Minning – Hafliði Jósteinsson

Hafliði Jósteinsson var jarðsunginn frá Húsavíkurkirkju í dag og var mikið fjölmenni samankomið við útförina í fallegu veðri. Með honum er genginn einstakur öðlingur sem alla tíð var mjög áberandi í húsvisku samfélagi.

Hafliði var mjög virkur í starfi stéttarfélaganna á Húsavík og tók sæti í varastjórn Verslunarmannafélags Húsavíkur 28. febrúar 1966 en til stofnfundar félagsins var boðað 6. september 1965. Hann sat lengi í stjórn og trúnaðarmannaráði Verslunarmannafélags Húsavíkur, þar af sem formaður um tíma. Auk þessa var hann í trúnaðarstörfum fyrir Landssamband íslenskra verslunarmanna. Við sameiningu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum árið 2008 tók Hafliði sæti í stjórn deildar- verslunar og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hann sat í stjórn deildarinnar til ársins 2011. Við það tækifæri var Hafliða þakkað áratuga starf hans að málefnum verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar og Verslunarmannafélags Húsavíkur með viðurkenningarskjali sem bar yfirheitið „Framúrskarandi félagsmaður í Framsýn.“ Hafliði þakkaði vel fyrir sig og hlýjar kveðjur í sinn garð um leið og hann sagði það hafa verið góðan skóla að starfa að verkalýðsmálum. Það hafi gefið honum mikið að starfa að velferðar- og verkalýðsmálum á svæðinu enda eitt af hans helstu áhugamálum. Hafliði var lengi reglulegur gestur á skrifstofu stéttarfélaganna auk þess að sækja fundi á vegum félaganna. Boðskapur hans var ávallt að veita góð ráð í kjarabaráttunni og því sem betur mætti fara á félagssvæði stéttarfélaganna. Meðan hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélögin var hann oft fenginn til að vera fulltrúi verslunarmanna á fundum og þingum á vegum Landssambands íslenskra verslunarmanna og Alþýðusambands Íslands. Hafliði þótti afar góður ræðumaður og var fastur fyrir þyrfti þess með auk þess að vera mikill framsóknarmaður, Leedsari og Völsungur sem er góð blanda. Hann var duglegur að mæta á viðburði á vegum stéttarfélaganna. Nú síðast í apríl þegar Framsýn hélt upp á 100 ára afmæli stéttarbaráttu kvenna í Þingeyjarsýslum. Afmælishátíðin fór fram í Safnahúsinu á Húsavík.

Þá var hann virkur í tónlistarlífinu og alltaf boðinn og búinn að leysa allskonar verkefni væri til hans leitað. Ekki skipti máli hvort um söguskoðun með hópa um Húsavík var um að ræða, leika jólasvein fyrir börnin, syngja eða lesa upp úr góðri bók fyrir íbúa á Skógarbrekku eða Hvammi, heimili aldraðra. Hafliði var alltaf boðinn og búinn að gera góðverk fyrir samfélagið. Það mætu margir taka hann til fyrirmyndar enda einstaklega bóngóður maður. Hafliða verður lengi minnst fyrir störf sín fyrir stéttarfélögin og samfélagið við Skjálfanda sem er ómetanlegt. Blessuð sé minning hans og takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir samfélagið.

Framsýn stéttarfélag vottar fjölskyldu Hafliða Jósteinssonar sína dýpstu samúð, nú þegar hann hefur flutt sig um set á stað þar sem hann á örugglega eftir að gera sig gildandi og vinna gott starf eins og honum einum er lagið. Megi minning um góðan mann lifa um ókomna tíð.

Fh. Framsýnar- stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson

Deila á