Sumarferð stéttarfélaganna – skráningu að ljúka

Stéttarfélögin ætla að bjóða upp á skemmtilega gönguferð um Mývatnssveit í sumar undir leiðsögn Helgu Þuríðar Árnadóttur úr Garði. Félögin hafa staðið fyrir sambærilegum ferðum undanfarin ár sem hafa verið mjög vinsælar og vel sóttar. Ferðin í sumar verður farin laugardaginn 25 ágúst, um er að ræða dagsferð. Lagt verður af stað frá Skrifstofu stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 klukkan 09:00. Þaðan verður ekið upp í Mývatnssveit og stoppað á Skútustöðum þar sem fólk yfirgefur rútuna. Þaðan verður gengið um Skútustaðagígana og gamla þjóðvegin heim í Garð. Á leiðinni er margt áhugavert að skoða s.s. Arnarbælið og Arngarðshólana. Um er að ræða þægilega göngu sem hentar öllum og tekur um þrjá tíma. Þegar komið verður í Garð verður ekið þaðan í Jarðböðin þar sem slakað verður á með nokkrum sundtökum áður en haldið verður aftur í Garð og grillað eftir góðan dag. Að því loknu verður haldið heim á leið til Húsavíkur með rútunni um kvöldmatarleytið. Skráning í ferðina er á Skrifstofu stéttarfélaganna og stendur til 13. ágúst. Einnig er hægt að senda skráningar á netfangið linda@framsyn.is. Verðið er kr. 5.000,-. Allt innifalið, það er rútuferðin, grillið í Garði og sundferðin í Jarðböðin.

Deila á