Svanasöngur kjararáðs

Kjararáð hefur enn á ný sent frá sér úrskurð um starfskjör forstöðumanna ríkisstofanna sem gengur þvert á þá almennu launastefnu sem samið hefur verið um á vinnumarkaði og gildir fyrir allan meginþorra launafólks. Lög um kjararáð féllu úr gildi frá 1. júlí síðastliðnum og hefur ráðið þar með lokið starfsemi sinni. Í þessum síðasta úrskurði sínum frá 14. júní ákvarðar kjararáð í einu lagi um laun 48 forstöðumanna ríkisstofnanna afturvirkt frá og með 1. desember 2017. Laun forstöðumannanna hækka mis mikið en vegin meðaltalshækkun þeirra er um 10,8%. Í úrskurðinum segir að hann taki til erinda frá forstöðumönnum sem borist hafi ráðinu á árunum 2016 og 2017. Ekki er í úrskurðinum að finna neinn nánari rökstuðning fyrir því að endurúrskurða þurfi um laun einstakra forstöðumanna hvorki úr innsendum erindum né frá hlutaðeigandi ráðuneytum sem stofnanirnar heyra undir.

Þessar köldu kveðjur til launafólks koma í framhaldi af fréttum um að laun forstöðumanna ríkisfyrirtækja hafi hækkað um tugi prósenta í kjölfar þess að ákvörðun um laun þeirra var færð frá kjararáði til stjórna viðkomandi stofnanna í júlí í fyrra.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, tekur undir orð forseta ASÍ um að það verði verkefni verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að hækkanirnar verði fordæmisgefandi í komandi kjaraviðræðum, enda metnar ,,hóflegar” af viðkomandi stjórnum. Það sé óásættanlegt að í þessu landi búi tvær þjóðir, yfirvaldið og almenningur sem um gildi mismunandi lögmál. Við það muni verkalýðshreyfingin aldrei sætta sig.

 

Deila á