Ný könnun – betur staðið að uppsögnum en búist var við

Við gerð kjarasamninga aðildarsamtaka ASÍ 2015 var gerð bókun um könnun á framkvæmd uppsagna á almennum vinnumarkaði. Í bókuninni segir:

„Á samningstímanum munu aðilar sammælast um spurningar sem lagðar verði annars vegar fyrir félagsmenn stéttarfélaganna og hins vegar fyrir aðildarfyrirtæki SA í könnunum sem aðilar annast sjálfur, þar sem leitast verður við að kanna almenna framkvæmd og þekkingu á ákvæðum kjarasamninga um uppsagnir (form,  frestir, viðtöl).“ 

Mál þróuðust þannig að SA lauk ekki sínum hluta en sl. vetur fékk ASÍ Gallup til þess að framkvæma fyrir sig könnun í samræmi við þessa bókun. Niðurstöður voru betri en fyrirfram var búist við. Af þeim 17% þátttakenda sem sagt hafði verið upp síðan 2008 reyndust 80% hafa fengið uppsagnarfrest og af þeim sem óskuðu skýringa á uppsögn sinni fengu 85% skýringar. Þetta eru í sjálfu sér þokkalegar niðurstöður en miðað við þann hóp sem leitar til ASÍ og aðildarsamtakanna vegna ólögmætra uppsagna hefði mátt ætla að staðan væri verri. Þegar hins vegar er litið á aldursskiptingu þeirra sem fengu uppsagnarfrest reyndust einungis 57% aðspurða í aldurshópnum 18-24 ára hafa fengið uppsagnarfrest. Í ljósi þess að nánast allt launafólk á rétt til kjarasamningsbundins uppsagnarfrests eru þessar niðurstöður sláandi. Í aldurshópnum 55-64 var hlutfallið 90%.

Það er því verk er að vinna, sérstaklega hvað yngsta aldurhópinn varðar. Annars vegar þarf að auka fræðslu og meðvitund yngri félagsmanna um réttarstöðu sína og hins vegar þarf að lagfæra ákvæði kjarasamninga um framkvæmd uppsagna. Á vettvangi ASÍ hefur komið fram eftirfarandi hugmynd um viðbót við ákvæði kjarasamninga þar sem fjallað er um uppsagnir og framkvæmd þeirra:

”Bætur vegna uppsagna úr starfi sem ekki eru skriflegar eða tilgreina ekki ástæðu uppsagnar eftir að ósk þar um hefur réttilega komið fram, reiknast sem jafnvirði áunnins uppsagnarfrests viðkomandi starfsmanns og sæta ekki frádrætti vegna launaðra starfa hans á uppsagnarfresti. Bætur vegna ólögmætra fyrirvaralausra uppsagna reiknast sem jafnvirði tvöfalds áunnins uppsagnarfrests viðkomandi starfsmanns og sæta ekki frádrætti vegna annarra launaðra starfa hans á uppsagnarfresti.“
Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar.

Twitter Facebook

Til baka

 

Deila á