Ungliðar innan SGS áttu saman góða samverustund

Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir ungliðafundi á Bifröst í Borgarfirði um miðja síðustu viku. Framsýn átti tvo fulltrúa á fundinum. Fundað var í tvo daga, það er í aðdraganda formannafundar sambandsins sem fram fór á sama stað. Meðal þess sem var til umræðu á fundinum voru áherslur ungs fólks í hreyfingunni og helstu áskoranir ungs fólks. Farið var yfir vinnumarkaðinn í alþjóðlegu samhengi undir fyrirlestri Gylfa Dalmann. Þá var fjallað um framtíð vinnumarkaðarins og þátttöku í félögum undir leiðsögn Haraldar Daða Ragnarssonar. Fræðslustjóri Samtakanna 78, Sólveig Rós fræðslustýra fór yfir málin; Eru skápar á vinnumarkaðinum? Að lokum var síðan haldinn sameiginlegur fundur ungliðana með formönnum aðildarfélaga sambandsins. Í máli ungliðina kom fram að samverustundin á Bifröst hefði bæði verið gefandi og eins fræðandi. Auk þessa var haldin kvöldvaka sem fór vel fram enda ungliðarnir til mikillar fyrirmyndar í alla staði.

Sunna Torfadóttir og Aðalbjörn Jóhannesson voru fulltrúar Framsýnar stéttarfélags á fundinum.

Ungliðar innan SGS áttu góða samverustund á Bifröst í Borgarfirði í síðustu viku.

Deila á