Barist við vindmyllur

N4 Landsbyggðir er blað sem gefið er út einu sinni í mánuði og dreift inn á öll heimili utan höfuðborgarsvæðisins og til allra fyrirtækja landsins, að auki er blaðinu dreift í verslunum Samkaupa á höfðuborgarsvæðinu. Blaðið er prentað hjá Ísafoldarprentsmiðju. Ristjóri er Herdís Helgadóttir (herdis@n4.is). Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, skrifar í nýjasta blaðið sem kom út í vikunni. Hér má lesa greinina:

Flest okkar þekkja söguna af riddaranum hugumprúða Don Kíkóta sem barðist við vindmyllur, sem risar væru, og sá í kindahópum stórhættulega óvinaheri á hverju strái.

Sagan af þessari merku skáldsagnapersónu kemur oft upp í hugann í mínum störfum sem formaður í stéttarfélagi, ekki síst síðustu ár þegar mikill uppgangur hefur verið á Íslandi. Þingeyingar hafa ekki farið varhluta af þenslunni  þar sem töluverð uppbygging hefur átt sér stað vegna framkvæmda er tengjast væntanlegri starfsemi PCC á Bakka. Þá hefur ferðaþjónustan blásið út eins og enginn sé morgundagurinn. Fyrirtæki og verktakar hafa brugðist við ástandinu með því að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl til að svara þörfum markaðarins.

Þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram, ekki síst af stjórnmálamönnum, að við Íslendingar séum reynslunni ríkari eftir hrunið mikla 2007 er alveg ljóst að svo er ekki. Staðan í dag er því miður  í takt við stjórnmálaástandið, það ríkir ófremdarástand og stjórnleysi svo ekki sé talað um spillinguna sem viðgengst víða í stjórnkerfinu. Þá dettur ákveðnum þingmönnum frekar í hug í stjórnarkreppunni að tala um lögleiðingu kannabisefna en byggða- og atvinnumál, hvað þá stöðu bænda um þessar mundir.

Umgjörðin um vinnumarkaðinn sem verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir frá hruni hefur ekki gengið eftir þrátt fyrir fögur fyrirheit  stjórnmálamanna. Því miður hefur þeim ekki borið gæfa til þess að taka á þessum málum með það að markmiði að tryggja heilbrigt  samkeppnishæft atvinnulíf.

Verkalýðshreyfingin situr uppi með vandann en gerir sitt besta til að bregðast við krefjandi aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði. Það er eins og engum komi þessi mál við nema verkalýðshreyfingunni. Mörg stéttarfélög hafa ráðist i kostnaðarsamar aðgerðir s.s. með ráðningum á eftirlitsfulltrúum til að fylgjast með þeim mikla fjölda starfsmanna sem komið hefur til landsins í gegnum starfsmannaleigur og verktaka.

Markmiðið hefur ekki síst verið að tryggja kjör og aðbúnað starfsmanna. Því miður virðist sem stjórnvöldum og stofnunum ríkisins komi þetta ástand ekkert sérstaklega við. Ég nefni sérstaklega embætti Ríkisskattstjóra. Það er alveg ljóst að embættið þarf að vera miklu sýnilegra í vinnustaðaeftirliti aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og almenn úrræði þurfa að vera til staðar til að takast á við alvarleg brot á vinnumarkaði.

Framsýn, stéttarfélag fær reglulega hvatningu frá fyrirtækjum sem starfa eftir lögum og reglum um að taka á þeim aðilum sem sýna sig í að virða ekki settar reglur þar sem slíkt skekkir verulega samkeppnisstöðu fyrirtækja.  Á sama tíma og þetta gerist heyrist ekkert frá Samtökum atvinnulífsins í Borgartúni, þar er dregið fyrir alla glugga enda lítill sem enginn áhugi fyrir því að taka þátt í vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna og stuðla þannig að eðlilegu atvinnulífi.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari stöðu, það eru alvarlegar brotalamir í kerfinu. Erlendir verktakar og starfsmannaleigur komast upp með að starfrækja starfsemi á Íslandi í ákveðinn tíma án þess að greiða skatta í ríkisjóð.  Þrátt fyrir að þessum aðilum beri   að greiða laun eftir íslenskum kjarasamningum er ekki gerð krafa um að þeir greiði laun starfsmanna inn á íslenska bankareikninga. Þetta gefur þeim færi á að svindla á starfsmönnum, það er að leggja fram löglega ráðningarsamninga á Íslandi og greiða svo ekki eftir þeim þar sem ekki er gerð krafa um að hægt sé að bera saman ráðningarsamninga og greiðslu launa inn á bankareikninga.

Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin hafi barist fyrir því að keðjuábyrgð verði lögleidd á Íslandi hafa þingmenn ekki sýnt sterkan vilja til að klára málið öllum til heilla nema þeim sem stunda óheiðarlega atvinnustarfsemi.  Reyndar hafði núverandi Félags- og jafnréttismálaráðherra boðað að hann ætlaði að taka þessi mál upp á Alþingi í vetur en þá skall á stjórnarkreppa, svo óvissan heldur áfram um ókomna tíð.

Já, mér líður eins og Don Kíkóta, baráttan við vindmyllurnar heldur áfram.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
Formaður Framsýnar, stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á