Sláturtíð Norðlenska komin vel af stað

Nú stendur yfir sláturtíð á landinu öllu, þar á meðal hjá Norðlenska á Húsavík.

Það í mörg horn að líta á þessum tíma eins og gefur að skilja. Finna þarf gistingu fyrir alla tímabundna starfsmenn sem er meira en að segja það nú þegar ferðaþjónustan er enn í fullum gangi þetta haustið, koma þarf öllu þessu fólki til landsins og fleira í þeim dúr. Starfsmenn á sláturtíð eru vel á annað hundrað og eru þeir af 16 þjóðernum. Slátrun hófst 31. ágúst og síðasti sláturdagur verður 27. október.

Það sem af er er meðalvigt hússins 16,7 kíló sem er í tæpu meðallagi. Þegar er búið að slátra það mörgum gripum að líkast til verður það niðurstaðan eftir haustið, það er vigt í tæpu meðallagi.

Á dögunum kom kínverskt sendinefnd í sláturhúsið til úttektar með það fyrir augum að hefja innflutning á íslensku lambakjöti til Kína. Að sögn Sigmundar Hreiðarssonar, vinnslustjóra hjá Norðlenska á Húsavík, gekk heimsóknin vel og var hin ánægjulegasta. Ekki var að merkja annað en að sendinefndinni hafi litist vel á og vonandi verður í framhaldinu haldið áfram með þá vinnu að selja kindakjöt til Kína.

Vandi sauðfjárvænda hefur verið mikið í umræðunni í haust. Á dögunum kom tillaga frá landbúnaðarráðherra þar sem bændum er boðið að hætta sauðfjárbúskap gegn því að fá ákveðnar ívilnanir í staðinn. Raunar er þetta tilboð í uppnámi nú eftir að ríkisstjórnin sprakk en engu að síður forvitnaðist blaðamaður framsyn.is hvort það sé merkjanlegt á sláturloforðum haustsins að bændur væru að taka þessu tilboði landbúnaðarráðherra? Sigmundur sagði að ekki væri útlit fyrir annað og eins og staðan er núna verði framleiðsla ársins 2018 svipuð og í ár og undanfarin ár hjá Norðlenska. 

Deila á