Frábær sumarferð á Borgarfjörð eystra

Um síðustu helgi fóru tæplega tuttugu félagsmenn stéttarfélaganna í sumarferð á Borgarfjörð eystra. Á leiðinni austur var litið við í Möðrudal þar sem menn fengur sér hressingu, kaffi og ástarpunga af bestu gerð. Síðar um daginn var komið við í Húsey  sem er  náttúruparadís milli fljóta við Héraðsflóa. Þar hittum við fyrir Örn Þorleifsson ferðaþjónustu – og hlunnindabónda sem er um margt einstakur maður og hafsjór af fróðleik ekki síst um lífið við Héraðsflóann. Síðan var ekið Borgarfjarðarveg um Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá. (Útmannasveit). Þegar þangað var komið komu menn sér fyrir á hóteli í bænum er nefnist Álfheimar og er staðsett úti á Bökkum sem kallað er. Síðan var farið um bæinn og ýmsir forvitnilegir staðir skoðaðir. Hópurinn safnaðist síðan saman um kvöldið og grillaði og að sjálfsögðu var sungið fram eftir kvöldi eftir langan, en ánægjulegan og fræðandi dag. Morguninn eftir voru allir komnir snemma á fætur til  gleypa í sig frekari fróðleik um sögu Borgarfjarðar sem er stórbrotin. Síðar um daginn, var síðan haldið heim á leið. Þegar komið var til Húsavíkur um kl. 17:00 á sunnudeginum var endað á því að renna út í Bakka þar sem var opinn dagur á vegum PCC sem bauð áhugasömum að skoða framkvæmdirnar sem tengjast uppbyggingu á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Fararstjóri ferðarinnar var Ósk Helgadóttir sem stóð sig að venju mjög vel.

Deila á