Innflutningur á ferskum matvælum til umræðu á opnum fundi Framsýnar

Framsýn stóð fyrir opnum fundi á Fosshótel Húsavík síðasta laugardag þar sem fjallað var um hættuna sem stafar af innflutningi á ferskum matvælum til landsins. Erindi fluttu tveir helstu sérfræðingar landsins á þessu sviði, þeir Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í veirufræði á Keldum og Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.
Eftir að formaður Framsýnar hafði boðið gesti velkomna og farið orðum um mikilvægi þessarar umræðu afhenti hann Ögmundi Jónassyni fundarstjórn en Ögmundur hefur haft forgöngu um að taka þessi mál upp.

ogmundurkjot0417 046

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ögmundur fór lofsamlegum orðum um Framsýn og sagði að í sínum huga sýndi félagið mikla framasýni með því að vilja lyfta þessu málefni. Sagði hann að margoft hefði hann fundið fyrir áhuga félagsins á málefnum sem tengdust matvælaframleiðslu og lýðheilsu. Færi vel á því að verkalýðshreyfingin gengi fram fyrir skjöldu með þessum hætti. Sagði Ögmundur að eftir að Framsýn tók að auglýsa fundinn hefðu sér borist fyrirspurnir annars staðar frá um að fá þessa fyrirlestra og umræðu þangað. Á sunnudeginum væri fyrirhugaður fundar á Akureyri og þegar farið að huga að fundum á Suðurlandi. Þetta væri hins vegar ekki í fyrsta skipti sem Þingeyingar sýndu frumkvæði þegar þjóðþrifamál væru annars vegar!

ogmundurkjot0417 067

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Erindi Vilhjálms fjallaði um smitsjúkdómastöðu íslensks búfjár og mögulegar smitleiðir nýrra smitefna til landsins. Í erindinu kom fram hve smitsjúkdómastaða íslenskra búfjárstofna er um margt óvenjuleg þegar hún er borin saman við það sem þekkist erlendis. Þannig eru mörg þeirra smitefna fátíð eða óþekkt í búfé hérlendis sem valda algengustu og alvarlegustu matarsýkingum í mönnum. Einkum á þetta við um hross, nautgripi, sauðfé og geitur.  Þessi sérstaða Íslands veldur því að mikill fjöldi þekktra og óþekktra smitefna getur valdið faröldrum í búfé hérlendis. Jafnframt eru mikil verðmæti fólgin í núverandi smitsjúkdómastöðu Íslands bæði með tilliti til affalla og afurðatjóns auk dýraverndar og verndar íslensku landnámskynjanna. Í góðri smitsjúkdómastöðu íslensku búfjárstofnanna eru og mikil verðmæti fólgin fyrir lýðheilsu.

Vilhjálmur gerði grein fyrir hverjar væru helstu smitleiðir nýrra smitefna hingað til lands s.s. með lifandi dýrum, mönnum, fóðri og matvælum. Í erindinu var sérstaklega fjallað um þá hættu sem fylgt getur innflutningi hrárra dýraafurða og hverjar gætu verið smitleiðir úr matvælum í dýr. Jafnframt var gerð grein fyrir þeim innflutningskröfum sem íslensk stjórnvöld gera við innflutning á hráum dýraafurðum sem geta borið smit. Nefnd voru dæmi fyrir einstök smitefni hverju núverandi innflutningskröfur skila til að draga úr áhættu.

Jafnframt kom fram í erindi Vilhjálms að ef slakað yrði á núgildandi heilbrigðiskröfum megi ætla að tíðni matarsýkinga í mönnum hérlendis myndi aukist. Jafnframt væri líklegt að smitburður í dýr af óæskilegum sjúkdómsvöldum myndi eiga sér stað fyrr en síðar, hvort sem það yrði með vörunum sjálfum eða með þeim sem neyta þeirra. Afleiðingar þessara sýkinga og kostnaður samfélagsins myndi  ráðast af smitefnunum sem bærust en gæti í verstu tilfellum orðið mikill og afleiðingarnar alvarlegar og óafturkræfar.

Athygli vakti þegar Vilhjálmur greindi frá því að nýlegar rannsóknir á Keldum á innfluttum ostum hefðu sýnt að þeir væru fullir af mæði-visnuveiru, sömu veiru og varð þess valdandi að 750 þúsund fjár féll eða var fellt vegna mæðiveikiveirunnar sem barst hingað til lands á fjórða áratug síðustu aldar með innflutningi á lifandi fé. Enda þótt veiran í innfluttu ostunum sem nú væru í búðarhillum okkar væru dauðar og því meinlausar minnti þetta á hve nærri við værum þessum veruleika. Ostarnir væru unnir úr afurðum dýra sem bæru þessa veiru.

ogmundurkjot0417 102

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í máli Karls G. Kristinssonar kom meðal annars fram að sýkingarhætta af völdum sýkla sem geta sýkt bæði menn og dýr (súnur) er meiri erlendis en á Íslandi og á sama hátt er meiri áhætta af því að sýkjast af slíkum sýklum við neyslu innfluttra matvæla en innlendra. Þetta á sérstaklega við um kampýlóbaktersýkingar sem eru mun sjaldgæfari á Íslandi en annars staðar. Það er vegna meira eftirlits og strangara regluumhverfis á Íslandi. Það byggir á því að kampýlobaktermengaðar kjúklingaafurðir fara ekki á markað ófrystar eða óhitameðhöndlaðar. Verði innflutningur gefinn frjáls má búast við stórauknum innflutningi á ódýrari kjúklingum sem eru mengaðri af kampýlóbakter. Einnig má búast við því að innflutningur á ferskri kjötvöru auki nýgengi Salmonellasýkinga og sýkinga af völdum E. coli baktería sem geta valdið blóðugum niðurgangi og jafnvel nýrnabilun.

Það sem veldur þó hvað mestum áhyggjum  er hættan á að með innflutningi á matvælum berist bakteríur sem eru nær al-ónæmar fyrir sýklalyfjum. Þótt við vitum ekki hversu mikil sú áhætta er, þá er ljóst að slíkar bakteríur geta borist með matvælum. Nær alónæmar bakteríur eru ekki landlægar á Íslandi og hafa hvorki fundist í íslenskum húsdýrum né íslenskum matvælum. Slíkar bakteríur eru hins vegar algengar í suður Evrópu, Asíu og víðar. Aukinn innflutningur matvæla eykur því áhættuna á því að slíkar bakteríur berist til landsins og verði hér landlægar. Því er mikilvægt að þekkja þá áhættu og bregðast við henni með auknu eftirliti og um leið sporna við óheftum innflutningi. Með því getum við vonandi lengt þann frest sem við höfum þangað til ný sýklalyf koma til sögunnar.

ogmundurkjot0417 106

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir erindin hófust umræður og kvöddu margir sér hljóðs. Ari Teitson, fyrrum formaður Bændasamtakanna vildi að fyrirlesarar væru gerðir út til Brüssel til uppfræða þá sem væru vankunnandi um þessi efni en hefðu engu að síður vald til ákvarðana. Var að þessu gerður góður en gamansamur rómur. Fjölmargir notuðu tækifærið til þess að þakka fyrir þessa umræðu sem allir voru sammála um að væri lífsnauðsynleg og hefði fundurinn tvímælalaust verið afar gagnlegur.

Hér að neðan eru síðan svipmyndir frá fundinum:

ogmundurkjot0417 129ogmundurkjot0417 134ogmundurkjot0417 138ogmundurkjot0417 143ogmundurkjot0417 159ogmundurkjot0417 071ogmundurkjot0417 186ogmundurkjot0417 170ogmundurkjot0417 072ogmundurkjot0417 080

 

 

 

ogmundurkjot0417 197 

Deila á