Kjörbúð opnar á Þórshöfn

Kjörbúðin opnaði á Þórshöfn síðastliðinn föstudag en það er ný verslunarkeðja sem tekur við af Samkaup Strax búðunum víða um land. Ómar Valdimarsson forstjóri Samkaupa sagði að stefnan væri að bjóða verð sem væri í það minnsta samkeppnishæft við lágvöruverðsverslanir en þessar breytingar eru gerðar eftir víðtæka könnun hjá viðskiptavinum Samkaup Strax um allt land. Þá er einnig lengdur opnunartími sem er mikil þjónustu aukning. Það er gömul saga og ný að fólk geri stórinnkaup í lágvöruverðsverslunum í stærri byggðarlögum þegar leiðin liggur þangað en með þessum breytingum og lægra vöruverði eflist vonandi verslun í heimabyggð. Elías Pétursson sveitarstjóri Langanesbyggðar afhenti Sóleyju Indriðadóttur verslunarstjóra Kjörbúðarinnar blómakörfu fyrir hönd sveitarfélagsins og lýsti yfir ánægju með þessar breytingar, sem bæta kjör íbúa. Starfsfólk hefur staðið í ströngu undanfarna daga, ásamt her manns úr röðum Samkaupa, við ýmsar lagfæringar og breytingar. Viðskiptavinum var boðið uppá kaffi og köku, auk þess sem ýmis opnuartilboð eru í gangi næstu daga. /GBJ

kjorbud 1 kjorbud 2

Deila á