Verkfallsbætur til sjómanna innan Framsýnar samþykktar

Á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar var farið yfir reglur sem koma til með að gilda varðandi greiðslur úr vinnudeilusjóði til sjómanna innan félagsins. Fram kom að stjórn Vinnudeilusjóðs félagsins samþykkti að viðhafa eftirfarandi reglur um úthlutun úr sjóðnum í verkfalli sjómanna. Greiddar verða verkfallsbætur frá 1. janúar 2017 alla virka daga meðan á verkfallinu stendur til félagsmanna í Sjómannadeild Framsýnar. Miðað verður við kauptryggingu háseta á mánuði sem er kr. 234.026,-. Til viðbótar verður greitt 19% álag á kauptrygginguna sem samtals gerir kr. 278.371 á mánuði eða kr. 12.845 á dag virka daga.

Sjómenn sem hyggjast sækja um verkfallsbætur þurfa að ganga frá umsókn þess efnis á eyðublaði sem hægt er að nálgast á Skrifstofu stéttarfélaganna og/eða á heimasíðu félagsins. Jafnframt þurfa þeir að skila inn upplýsingum varðandi persónuafsláttinn á móti greiddum verkfallsbótum þar sem þær eru skattskyldar. Sjómenn sem stunda vinnu í landi, meðan á verkfallinu stendur,  eiga ekki rétt á greiðslum úr Vinnudeilusjóði fyrir þá daga sem þeir eru við störf. Það á einnig við ef þeir stunda sjálfboðavinnu sem almennt telst launuð vinna. Greitt verður út mánaðarlega nema annað verði ákveðið af stjórn Vinnudeilusjóðs.

 

 

Deila á