Starfsmenn G&M yfirgefa landið: „I was with you today, thank you for what you are doing. You’re gorgeous.“

Undirverktakinn G&M sem verið hefur með verkefni á Þeistareykjum og við Laxárvikrjun á vegum verktakans LNS Saga hefur nú pakkað saman og yfirgefið landið með starfsmenn sína. Síðustu starfsmennirnir fóru frá landinu síðasta föstudag. Frá því að fyrirtækið hóf störf á Þeistareykjum vorið 2015 hafa verið allt að 60 starfsmenn við störf á vegum fyrirtækisins á félagssvæði Framsýnar.
Frá upphafi hefur Framsýn þurft að hafa afskipti af fyrirtækinu þar sem það hefur ekki séð ástæðu til að virða þær reglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Það er þrátt fyrir að Framsýn hafi gengið frá samkomulagi við fyrirtækið haustið 2015 um vinnufyrirkomulag og kjör starfsmanna. Blekkið var varla þornað á samkomulaginu þegar fyrirtækið hófst handa við að brjóta samkomulagið. Það eru ófáir fundirnir sem forsvarsmenn Framsýnar hafa átt með starfsmönnum fyrirtækisins svo ekki sé talað um alla netpóstana sem farið hafa milli aðila vegna þessara samskipta. Í sumar krafðist Framsýn þess að fyrirtækið greiddi starfsmönnum vangoldin laun upp á um 14 milljónir. Um er að ræða leiðréttingu á launum. Jafnframt var þess óskað að aðalverktakinn LNS Saga greiddi launin beint inn á reikning starfsmanna, það er héldi eftir uppgjöri til undirverktakans G&M þannig að leiðréttingin skilaði sér örugglega til starfsmanna.
Á þetta var fallist og leiðréttingin greidd beint inn á reikninga starfsmanna. Eftir stendur krafa Framsýnar um að fyrirtækið greiði starfsmönnum 3 milljónir til viðbótar vegna vangoldinna launa sem tengjast starfsemi fyrirtækisins áður en þeir skráðu sig með útibú á Íslandi í maí 2016. Til viðbótar hefur fyrirtækið ekki staðið við að greiða kjarasamningsbundinn gjöld af starfsmönnum til Framsýnar. Sú upphæð liggur ekki fyrir en verið er að skoða hver hún er. Í því sambandi hefur verið kallað eftir upplýsingum frá G&M í dag.
Starfsmenn G&M voru í sambandi við Framsýn fyrir helgina áður en þeir yfirgáfu landið. Óvissa var um hvernig þeir kæmust suður til Keflavíkur í flug til Póllands. Það mál leystist farsællega og komust þeir suður í tæka tíð. Málinu er hins vegar engan veginn lokið þar sem stjórnendur G&M hafa hótað því að draga af starfsmönnum launaleiðréttinguna sem Framsýn náði fram með samkomulagi við fyrirtækið þar sem þeir kannast ekki við að hafa samþykkt leiðina sem var farinn í gegnum LNS Saga.
Væntanlega verður ekki auðvelt að eiga við fyrirtækið eftir að það hefur yfirgefið landið og hætt starfsemi á Íslandi. Hins vegar verður allt gert til að tryggja starfsmönnum rétt kjör. Framsýn hefur kallað eftir lögum um keðjuábyrgð fyrirtækja og mun berjast fyrir því að slík lög nái fram að ganga á Alþingi.
Eins og þessi frétt ber með sér hefur gífurlegur tími farið í þetta erfiða mál. Það hefur hjálpað mikið til að verkkaupinn Landsvirkjun og aðalverktakinn LNS Saga hafa lagt sitt að mörgum til að liðka fyrir lausn málsins og fyrir það ber að þakka. Framsýn hefur borist miklar og góðar þakkir frá starfsmönnum G&M fyrir baráttu félagsins að tryggja starfsmönnum launakjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Framganga Framsýnar hefur spurst út þar sem starfsmenn G&M á höfuðborgarsvæðinu og sem starfa við verkefni á vegum fyrirtækisins í Noregi hafa kallað eftir aðstoð frá félaginu.
Þegar framkvæmdir hófust á „Stór Húsavíkursvæðinu“ vegna uppbyggingu PCC á Bakka gaf Framsýn það út að allt yrði gert til að vinna gegn undirboðum og kjarasamningsbrotum. Við það hefur félagið staðið og mun gera áfram. Nú þegar hafa tvö fyrirtæki yfirgefið svæðið sem rekja má að hluta til afskipta félagsins að þeirra starfsemi þar sem þau hafa ekki virt kjarasamninga.

gm0816-011

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mikið og gott samband hefur myndast milli erlendra starfsmanna sem tengjast uppbyggingunni á Bakka og forsvarsmanna Framsýnar/Þingiðnar. Hér má sjá póst frá starfsmanni G&M síðasta föstudag eftir að félögin komu að því að aðstoða starfsmenn fyrirtækisins að komast til Keflavíkur í veg fyrir flug til Póllands. „I was with you today, thank you for what you are doing. You’re gorgeous.“

Deila á