Ályktun um sóðaskap kjararáðs

Stjórn Framsýnar samþykkti í hádeginu að senda frá sér svohljóðandi ályktun um úrskurð kjararáðs á launahækkunum til þingmanna, ráðherra og forseta Íslands. Ljóst er að almenningi og þar með stjórn Framsýnar er gróflega misboðið:
Ályktun um sóðaskap kjararáðs
„Framsýn stéttarfélag fordæmir harðlega úrskurð kjararáðs um ofurhækkanir til handa þingmönnum, ráðherrum og forseta Íslands. Hækkanir sem eru langt, langt umfram það sem eðlilegt getur talist og endurspeglar enn og aftur spillinguna og misréttið sem viðgengst í þjóðfélaginu.
Framsýn skorar á hlutaðeigandi aðila, það er kjörinna fulltrúa, að afsala sér hækkunum kjararáðs og taka þess í stað við almennum launahækkunum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um. Annað væri ömurlegt veganesti inn í nýtt kjörtímabil fyrir þingmenn og ráðherra sem vilja ávinna sér traust þjóðarinnar.
Þessi ótrúlegi gjörningur kjararáðs kallar á breytingar. Krafan er að skipaðir fulltrúar í kjararáði segi þegar í stað af sér þar sem þeir eru algjörlega rúnir trausti. Þá er mikilvægt að Alþingi geri breytingar á hlutverki ráðsins og finni launahækkunum til embættismanna og kjörinna fulltrúa sem falla undir úrskurð kjararáðs sanngjarnari farveg.
Þá er tímabært að Alþýðusamband Íslands boði til mótmæla á Austurvelli þar sem þessum gjörningi verði mótmælt harðlega um leið og svokallað SALEK samkomulag aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda verði brennt á báli með táknrænum hætti. Samkomulag sem stjórnvöld hafa barist fyrir að koma í gegn með það að markmiði meðal annars að stuðla að hógværum launahækkunum og vinna gegn svokölluðu „höfrungahlaupi“ á íslenskum vinnumarkaði.
Að lokum skorar Framsýn stéttarfélag á verkalýðshreyfinguna að segja upp gildandi kjarasamningum þar sem forsendur samninganna eru brostnar með taktlausu útspili kjararáðs. Sjálftaka sem þessi sem gerð er í skjóli myrkurs á ekki að líðast í landi sem kennir sig við virkt lýðræði. „

Deila á