Óska eftir formlegu samstarfi við SA um vinnustaðaeftirlit

Framsýn setti sig í samband við Samtök atvinnulífsins í dag og bauð þeim aðkomu að vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Fyrir er félagið í góðu samstarfi við önnur stéttarfélög, lögregluna, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og Ríkisskattstjóra. Í ályktun sem stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar sendi frá sér í morgun eru Samtök atvinnulífsins gagnrýnt fyrir áhugaleysi er viðkemur vinnustaðaeftirliti. Með netpósti til Framsýnar í dag er því mótmælt af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Framsýn hefur ákveðið að svara fyrir sig og bjóða samtökunum að vera þátttakendur í öflugu vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hafni þeir því, stendur ályktun Framsýnar um áhugaleysi samtakana. Samþykki SA hins vegar að vera með í eftirlitinu sýna þeir ábyrgð og senda þar með skýr skilaboð út í samfélagið um að undirboð verði ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði. Nú er að bíða og sjá, hver viðbrögð Samtaka atvinnulífsins verða við erindi Framsýnar um sameiginlegt vinnustaðaeftirlit.

Deila á