„Löng og ströng barátta sem á stundum kostaði blóðuga hnúa, verkföll og vinnustöðvanir.“

Rétt í þessu voru að hefjast hátíðarhöld stéttarfélaganna á Blönduósi, eða kl. 15:00. Ræðumaður dagsins er Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar. Hér má lesa ræðuna:

Ágætu gestir.
Það er mér mikill heiður að fá að vera með ykkur hér í dag og mig langar að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn, þann 1. maí. Ég flyt ykkur kveðju félaga minna úr austri. Á Húsavík er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins í heiðri hafður líkt og hér. Þar koma Þingeyingar saman, blása í lúðra og brýna vopnin til áframhaldandi átaka.
Í dag er full ástæða til staldra við og líta um öxl, því í ár eru liðin 100 ár frá stofnun Alþýðusambands Íslands. Verkalýðsfélög höfðu þá verið starfandi hér á landi í nokkur ár, en það voru félagsmenn sjö verkalýðs – og sjómannafélaga í Reykjavík sem stóðu að stofnun sambandsins árið 1916. Tilgangurinn með stofnun Alþýðusambandsins var að að berjast fyrir betra samfélagi og stilla saman strengi í baráttunni fyrir bættum kjörum.
Á síðustu öld upplifðu Íslendingar einhverjar mestu framfarir í sögu þjóðarinnar. Í lok aldarinnar nítjándu höfðu nær allir íbúar landsins afkomu sína af landbúnaði á einn eða annan hátt. Vistarbandið sem haldið hafði hluta þjóðarinnar í ánauð hafði þá verið afnumið og tímarnir teknir að breytast. Ný hugmyndafræði fordæmdi ánauð og niðurlægingu þeirra sem minna máttu sín. Hún stráði fræjum sjálfræðis í brjóst hjúa og annarar alþýðu og gaf réttlausu fólki örlitla von um að þeirra kynni að bíða betra líf. Í bæjum og þorpum vöknuðu menn til vitundar um mátt samtakanna og réttsins til að mega lifa eins og menn.
Fram til þessa hafði landbúnaðurinn lifað á ódýru vinnuafli, en með aukinni iðnvæðingu breyttust mjög atvinnuhættir fólks. Gróskumikill sjávarútvegurinn og gott tíðarfar til lands og sjávar skapaði nú samkeppni um vinnandi hendur. Verkafólk á Íslandi fann sinn vitjunartíma á þessum árum og hóf baráttuna fyrir bættum lífskjörum, baráttu gegn auðvaldi og afturhaldi.
Einn fyrsti sigurinn sem vannst fyrir tilstilli verkalýðsbaráttu hér á landi voru Vökulögin svokölluðu, sem sett voru á árið1921. Þau tryggðu sjómönnum sex tíma hvíld á sólarhring. Til þess tíma voru þess dæmi að sjómenn á togurum stæðu vaktir sólarhringum saman, oft þar til þeir duttu sofandi ofan í kösina með hnífinn í greipinni.
Það var sannarlega ástæða fyrir því að lög sem þessi voru sett, því það var farið illa með fólk. Það eru víst bæði gömul sannindi og ný að ,,fæstir njóti eldana sem fyrstir kveikja þá“.

Á árum fyrri heimstyrjaldarinnar var gríðarleg dýrtíð á Íslandi, örbirgð fór vaxandi og baráttan um brauðið var hörð. Upp úr 1930 harðnaði baráttan með hverju árinu, auðvaldskreppan læsti sig inn í heimili allrar alþýðu, með hungurvofuna á hælunum og stéttarskipting var meiri en nokkru sinni. Vinnulaun voru sjaldan greidd í peningum á þessum árum, heldur í vörum, sem voru yfirleitt reiknaðar hærra en peningaverðið. Kaupmaðurinn var sá sem sem fólk átti allt sitt undir og örsnauður almenningur upplifði áframhaldandi þrælahald og kúgun.
Á fyrstu árum verkalýðsbaráttunnar snerist baráttan ekki eingöngu um hækkun lágmarkslauna og viðurkenningu á samningsréttinum, hún sneri líka að því að fá fátækt fólk til að sameinast um kröfur, því sjálfu til hagsbóta. Kúgun aldanna stóð í mörgum manninum, sem frekar kaus að fylgja kvölurum sínum en að berjast fyrir auknum réttindum sjálfum sér til handa. Óttinn við allsleysið og baráttan fyrir brýnustu nauðsynjum vóg þar þungt, baktrygging fjölskyldunnar var í höndum vinnuveitandans. Þeir sem stóðu í eldlínunni og börðust fyrir nýjungum og umbótum fengu heldur ekki alltaf þakklætið að launum.

Verkalýðshreyfingin, með Alþýðusamband Íslands í fararbroddi hefur náð miklum árangri í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðufólks síðustu 100 árin. Við getum nefnt þar baráttu fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir launafólk, fyrir menntun á vinnumarkaði og uppbyggingu starfsendurhæfingar. Við getum einnig nefnt lífeyrisrétt, almannatryggingar , fæðingarorlof, atvinnuleysis – og örorkubætur, sem og veikindarétt. Verkalýðshreyfingin hefur einnig beitt sér fyrir hugarfarsbreytingu í þágu jafnréttis og svo ótal mörgu öðru sem snýr að velferð almennings og breyttu viðhorfi samfélagsins. Löng og ströng barátta sem á stundum kostaði blóðuga hnúa, verkföll og vinnustöðvanir. Sigrar unnust, ekki alltaf stórir, en dropinn holaði steininn.
En hvar erum við í dag? Á Íslandi á velferð almennings að vera tryggð með svokölluðum samfélagssáttmála, en hann kveður á um að menn greiði skatt af sínum launum, allir hafi jafnan rétt til náms, geti leitað sér og sínum eftir þjónustu heilsugæslu, ásamt því að afkoma eldri borgara og öryrkja á að vera tryggð, að allir séu jafnir. Samfélagssáttmálinn er því trygging þeirra sem að honum standa, fyrir því að samfélaginu sé ávallt stjórnað út frá almannahag en ekki út frá einkahagsmunum.
Það er einnig talað um huglæga velferð, en hún byggir á ánægju fólks með lífið og samfélagið. Reiðin og ólgan meðal fólksins í landinu að undanförnu bendir ekki til þess að þorri almennings sé að upplifa þar neina sérstaka ánægju. Og það er ekkert sem bendir til annars í framgöngu þeirra sem halda í stjórnartaumana, en að þeir muni leggja sig fram við að fóðra frænda sinn á fjósbitanum fram til haustsins, hvað sem á þeim dynur.
Einhversstaðar verða peningarnir að vera, það er flókið að eiga peninga á Íslandi“ sagði þáverandi atvinnuvegaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtali hér á dögunum.
Ég upplýsi það hér með ágætu gestir að í eyru mín, miðaldra ræstingakonunnar hljómaði speki núverandi forsetisráðherra, furðulega. Hef enda aldrei þurft að „gambla“ með launaafganginn minn né dylja eigur mínar. Hagkerfi míns heimilis hefur byggst á því síðustu áratugi að reyna að ná endum saman og tryggja afkomu fjölskyldunnar og það hefur komið fyrir að mér hafi fundist þeir endar nokkuð flóknir. En mér finnst það ekki flókið að álíta svo að ákveði menn að dylja eigur sínar í aflandsfélögum erlendra skattaskjóla, séu þeir hinir sömu vísvitandi að stinga undan efnahag og velferð í heimalandi sínu.
Í mínum huga er engin synd að vera auðugur, en það er ekkert sem réttlætir það að þeir sem eiga meira fjármagn en aðrir spili eftir eigin leikreglum.

Ágætu félagar. Síðustu árin hafa verið átök á íslenskum vinnumarkaði, þau hörðustu í mörg ár. Án efa var ástæða þeirra sú að almenningur á Íslandi var enn einu sinni kominn með upp í kok af ranglæti, misskiptingu og ég segi siðblindu þeirra sem á endanum sökktu þjóðarskútunni, árið sem frægt er orðið.
Íslenska þjóðin telst í dag, þrátt fyrir ágjöfina meðal efnuðustu þjóða heims og á góðum dögum tala helstu ráðamenn okkar um auðlindirnar þjóðarinnar, í formi jarðvarma og fallvatna. Þeir tala um auðlindir hafsins og ósnortinnar náttúru, auðlindina sem býr í þekkingu og menningu fólksins sem byggir þetta land. Allan þennan auð sem við eigum saman og skapar okkur gjaldeyristekjur, og að það sé gott að búa í réttlátu samfélagi þar sem allir eru jafnir.
Á þessum góðviðrisdögum er einnig talað fyrir útrýmingu launamuns kynja og öflugu heilbrigðis – og menntakerfi. Meira að segja seðlabankastjóri sem alþýða manna á Íslandi telur oftast boðbera válegra tíðinda, lét hafa það eftir sér á dögunum að staða ríkissjóðs hafi ekki verið betri síðan árið 1965, á gullárum síldarinnar.

Hvernig má það þá vera að sjávarútvegsfyrirtækin, sem mörg hver skila sögulegum hagnaði og greiddu eigendum sínum út arð á síðasta ári, þann hæsta frá hruni, skuli ekki geta fundið svigrúm nema fyrir 6.2 % launahækkun til fólksins á gólfinu, þeirra sem hamast eins og hamstrar á hjóli til að skapa eigendum sínum þennan arð? Er það jöfnuður?

Hvernig má það vera að tryggingafélögin hækki iðgjöld sín vegna slæmrar afkomu, en greiði á sama tíma eigendum sínum milljarða í arðgreiðslur? Er það jöfnuður?

Eða er það jöfnuður að ofurlaunaðir forstjórar og sumir æðstu embættismenn þjóðarinnar skuli leyfa sér að dylja eigur sínar í aflandsfélögum erlendra skattaskjóla, meðan allur almenningur hér á landi er skattpíndur til síðasta blóðdropa.

Það er kannski jöfnuður fólginn í því að aldraðir, öryrkjar og tekjulágt fólk á vinnumarkaði veigri sér við að leita eftir þjónustu til okkar stríðshrjáða heilbrigðiskerfis, sökum kostnaðar.
Er það jöfnuður að hjúkrunarheimilin standi auð og bíði fólksins sem byggði upp samfélagið fyrir okkur, af því að það eru ekki til peningar til að reka þau. Er þetta fólk ekki búið að greiða aðgangseyrinn og ætti að geta fengið þá aðstoð og umönnun sem það þarf á að halda til að geta gengið síðustu metrana í þessu lífi með sæmilegri reisn? Hvað varð um samfélagssáttmálann? Lenti hann líka á Tortola?
Hver skyldi hafa ákveðið það að fámennur hluti þjóðarinnar geti sífellt staðsett sig á hærri palli en við hin þegar þjóðarkökunni er skipt. Fyrir mér heitir það ekki jöfnuður – það er spilling.
Ég nefndi hér áðan að kúgun aldanna hafi staðið í fólki á upphafsárum verkalýðsbaráttunnar og ég velti því fyrir mér hvort það sé rétt sem stundum hefur verið sagt að genin gleymi ekki, því mér er lífsins ómögulegt að skilja af hverju fólk kýs kvalara sína.
Fólkið sem barðist fyrir bættum kjörum og viðurkenningu samfélagsins, fólkið sem lagði grunninn að Alþýðusambandi Íslands árið 1916. Hvernig myndi þeim lítast á ástandið í þjóðfélaginu í dag? Vísast gætum við bent þeim á margt sem áunnist hefur á síðustu 100 árum, og þau myndu skilja að íslenskt velferðarkerfi byggðist ekki upp að sjálfu sér. En það er nokkuð ljóst að ekki gætum við stært okkur af stórum breytingum þegar kemur að misskiptingu auðs og valds.
Jöfnuður er í það minnsta ekki fyrsta orðið sem kemur upp í huga mér þegar ég renni yfir söguna síðustu 100 árin. Fréttir fjölmiðla síðustu vikna og mánaða færa okkur heim sanninn um það að þrátt fyrir ötula baráttu eru verkefnin framundan ærin. Fréttir af erlendu starfsfólki sem ráðið er upp á vatn og brauð af bændum, ferðaþjónustuaðilum og verktökum í byggingariðnaði minna á aldagamlar sagnir af ódýru vinnuafli mosagróins bændasamfélags. Nýlegar fréttir af mansali hér á landi svipa einnig til ljótrar sögu um meðferð á fátækum Íslendingum fyrri tíma.
Erlendar starfsmannaleigur sem greiða laun undir gildandi kjarasamningum eru ljót dæmi um forsvarsmenn fyrirtækja sem notfæra sér neyð verkafólks frá fátækustu löndum Evrópu. Ráðningarsamningar án skilgreinds starfshlutfalls eru aftur að ryðja sér til rúms á vinnumarkaði, dapurlegt dæmi og afturhvarf til snapavinnu kreppuáranna. Húsnæðismálin sem þarfnast tafarlausrar úrlausnar, brot á erlendu verkafólki og ungu fólki á vinnumarkaði eru daglega í fréttum.
Er það ekki öfugsnúið að þjóð sem stærir sig að áðurnefndu velferðarkerfi, einu því öflugasta í heimi skuli endalaust líða það að jöfnuður gildi ekki fyrir alla hópa samfélagsins?
Félagar. Baráttunni um brauðið lýkur eflaust aldrei. Við viljum ekki að sagan endurtaki sig, það erum því við sem þurfum að vera á tánum og standa vörð um réttindi okkar – allra, jafnframt því að fylgjast með styðja félaga okkar í öðrum löndum og miðla því sem okkur hefur áunnist.
Íslensk verkalýðshreyfing er sterkt og mikið þjóðfélagsafl, hún stendur sem fyrr fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það neistar enn af eldi forfeðranna. Blásum duglega í glæðurnar, lífgum eldinn og beitum okkur áfram fyrir uppbyggingu heilbrigðara og sanngjarnara samfélags á Íslandi.
Það býr ein þjóð í þessu landi og þeir eiga að njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.

Ósk Helgadóttir

Deila á