Miðbærinn styrkist- Sel verður veitingahús

Um þessar mundir er unnið að því að breyta virðulegu timburhúsi við Ásgarðsveg 1 á Húsavík í veitingastað. Húsið sem ber nafnið Sel var byggt árið 1931. Það eru mágkonurnar Elín Kristjánsdóttir og Ingunn Ásta Egilsdóttir sem hafa fest kaup á húsinu samkvæmt frétt Skarps um málið. Til stendur að opna nýja veitingastaðinn í sumarbyrjun. Þær Elín og Ingunn hafa síðustu ár rekið mjög vinsælan veitingastað fyrir neðan Bakkann á Húsavík sem borið hefur nafnið Naustið. Staðurinn hefur sérhæft sig í ferskum sjávarréttum og mun gera það áfram á nýjum stað við Ásgarðsveginn. Ekki er ólíklegt að miðbæjarkjarninn á Húsavík muni styrkjast með tilkomu veitingastaðarins á þennan stað sem verður við hliðina á Gistiheimilinu Árból og stutt verður í aðra þjónustu sem ferðamenn á hverjum tíma sækja í. Þá bendir allt til þess að nýr veitingastaður dreifi því mikla álagi sem þegar er orðið við hafnarsvæðið og fyrrum verslunarhúsnæði Kaupfélags Þingeyinga við Garðarsbrautina. Eins og kunnugt er hefur komum ferðamanna til Húsavíkur fjölgað verulega á síðustu árum og spár gera ráð fyrir að þeim muni fjölga enn frekar á komandi árum.

blandad03316 012
Unnið er að því þessa dagana að gera Sel að virðulegum veitingastað. Nýr veitingastaður opnar í húsinu í sumar þar sem Sigurður heitinn Brim bjó áður.

Deila á