Þingmaðurinn sem tók þátt í færslu á kvóta frá Húsavík „ábyrgðar- og dómgreindaleysi.“ Bæjarfulltrúar í Grindavík brjálaðir yfir að missa skip og kvóta á Fáskrúðsfjörð

Rétt er að taka fram að þessi fyrirsögn er ekki brandari. Samkvæmt nýlegri frétt Austurfrétta sauð upp úr á bæjarstjórnarfundi í Grindavík þegar sala á bát og kvóta úr bænum var til umræðu. Það byrjaði á harðri gagnrýni Páls Jóhanns Pálssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarmanna og þingmanns, sem sagðist harma meðferð bæjarráðs á málinu, lýsti „vanþóknun á þeim sem ráða ferðinni“ og sakaði þá um „ábyrgðar- og dómgreindaleysi.“ Hér má lesa þessa athyglisverðu frétt sem er á austurfrett.is:

Hiti var í bæjarfulltrúum í Grindavík þegar þeir ræddu sölu á línuveiðibátnum Sandfellu SU 75 frá Stakkavík til Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Þeir telja bæinn hafa verið hlunnfarinn um forkaupsrétt en hyggja ekki á lögsókn. Þeir óttast að störf flytjist til Austfjarða í kjölfarið.

Loðnuvinnslan festi kaup á bátnum, sem áður hét Óli á Stað, í lok janúar og var tekið á móti honum í nýrri heimahöfn í byrjun febrúar. Honum fylgir 1200 tonna bolfiskkvóti í krókaaflamarkskerfinu sem Loðnuvinnslan gerðir andvirði 3,1 milljarðs króna fyrir. Hluti þeirra er í formi 200 tonna þorskkvóta í aflamarkskerfinu sem metinn er á 600 milljónir króna.

Kaupsamningurinn er undirritaður 26. janúar. Tilboð var gert sléttum tveimur mánuðum fyrr. Stakkavík gerði Grindavíkurbæ viðvart um fyrirhuguð viðskipti og bauð bænum forkaupsrétt samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun. Það er gert 1. desember og forkaupsrétturinn þar með talinn gildur til 28. sama mánaðar.

Í kjölfar bæjarráðsfundar þann 2. desember var óskað eftir að útgerðarfélög í bænum lýstu yfir áhuga sínum með skuldbindandi hætti fyrir hádegi 10. desember hvort þau hefðu áhuga á að ganga inn í kaupin. Í bréfi undirrituðu af bæjarstjóra segir að markmið Grindavíkurbæjar sé „að reyna eftir fremsta megni að tryggja að aflaheimildirnar haldist í sveitarfélaginu og að viðskiptin verði sveitarfélaginu að skaðlausu.“

18-23 störf í húfi

Í minnisblaði bæjarstjóra frá 9. desember greinir hann frá samtali sínu við forsvarsmann Stakkavíkur sem hafi lýst því að til að fyrirtækið væri jafnsett nýtti bærinn forkaupsrétt sinn yrði einnig að tryggja að fyrirtækið fengi 200 tonna kvóta en ekki eingöngu fjármuni. Væri báturinn seldur án þess að aflaheimildir kæmu á móti gætu störfum á sjó fækkað um átta og 10-15 í landi.

Bæjarstjórinn segir skipasöluna hafa krafist þess að ákvörðun yrði tekin sem fyrst og vísað til þess að í sölutilboðinu sé fyrirvari um samþykki stjórnar Loðnuvinnslunnar sem hægt sé að virkja dragist ferlið á langinn. Bæjarstjórinn skrifar að þann dag hafi hann kallað „eftir skýrum svörum frá skipasalanum um hvort stjórn Loðnuvinnslunnar hafi staðfest tilboðið.“

Vísir hf. lýsti yfir áhuga með bréfi dagsettu 10. desember en óskaði eftir tveggja vikna fresti til að útvega fjármagn. Þremur dögum fyrr hafði forsvarsmaður fyrirtækisins látið vita af áhuga þess. Bæjarráð samþykkti hins vegar á fundi sínum þann dag að nota ekki réttinn. Í því fælist of mikil áhætta fyrir bæjarfélagið auk þess sem salan hefði „ekki afgerandi áhrif á atvinnulíf og samfélag í Grindavík.“

„Engin sala sem taka þarf afstöðu til“

Á bæjarstjórnarfundi fimm dögum síðar var málinu frestað. Daginn áður höfðu forsvarsmenn Stakkavíkur sent bænum bréf um að þeir hefðu „afturkallað sölutilboð“ þar sem það hefði verið háð samþykki stjórnar Loðnuvinnslunnar en það ekki borist. Þar með „komst aldrei á skuldbindandi samningur um söluna, svo sem forsvarsmenn Grindavíkur höfðu bent á […] þá er enginn kaupsamningur til staðar og engin sala sem taka þarf afstöðu til forkaupsréttar á.“

Stjórn Loðnuvinnslunnar staðfestir heimild framkvæmdastjóra til undirskriftar tilboðs þann 16. desember. Fyrirvaranum sé þar með aflétt og beðið eftir svari bæjarstjórnar Grindavíkur sem hafi forkaupsrétt til 28. desember.

Þann 15. janúar sendir lögmaður Loðnuvinnslunnar Grindavíkurbæ bréf þar sem hann lýsir því yfir að forkaupsrétturinn sé fallinn niður og vísar meðal annars til bókunar bæjarráðs frá 10. desember.

Hvenær er forkaupsrétturinn gildur?

Bréf lögfræðingsins er tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi 26. janúar, sama dag og endanlegur kaupsamningur er undirritaður. Í samræmi við umræður á fundinum er bréfinu svarað á þeim nótum að fyrir liggi að áhugi hafi verið innan bæjarins á að kaupa skipið.

Ekki hafi verið hægt að ætlast til þess að afstaða væri tekin til þess eftir erindi Stakkavíkur og svo virtist sem ágreiningur væri milli fyrirtækjanna um hvort kaupsamningur lægi fyrir. Bærinn líti svo á að fjögurra vikna frestur til forkaupsréttar verði ekki virkur fyrr en hann liggi fyrir.

Bæjarráð fjallar aftur um málið 2. febrúar og bókar að lagaleg óvissa sé uppi. Tveimur dögum síðar er haldin móttökuathöfn fyrir bátinn á Fáskrúðsfirði og honum gefið Sandfellsnafnið.

„Þetta fólk þegar farið að tala um að flytja úr bænum“

Síðan hefur bæjarráð Grindavíkur tvisvar fjallað um málið ásamt lögfræðingum. Á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi sauð svo upp úr þegar málið var tekið á dagskrá. Það byrjaði á harðri gagnrýni Páls Jóhanns Pálssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarmanna og þingmanns, sem sagðist harma meðferð bæjarráðs á málinu, lýsti „vanþóknun á þeim sem ráða ferðinni“ og sakaði þá um „ábyrgðar- og dómgreindaleysi.“

Hann lýsti áhyggjum sínum af áhrifum viðskiptanna á Grindavík. „Trúa menn því að það tapist ekki störf þegar 1000 tonn fara út úr bænum. Þetta fólk er þegar farið að tala um að flytja úr bænum. Þegar menn eru farnir að róa annars staðar flytja menn sína fjölskyldu“

„Viljum alls ekki að kvóti renni í önnur sveitarfélög“

Guðmundur Pálsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, brást hart við orðum Páls. Hann sagði að málið væri „stórt mál fyrir Grindavík“ og bæjarfulltrúar þar vildu „alls ekki að kvóti renni þaðan frá í önnur sveitarfélög.“

Hann og fleiri fulltrúar meirihlutans, sem Sjálfstæðisflokkur myndar með Grindavíkurlistanum, sögðu að bærinn tæki mikla áhættu með dómsmáli. Það tæki langan tíma, niðurstaða þess væri óviss og ekki hefði verið komið bindandi tilboð frá Vísi sem réttlætti að taka áhættuna.

Samflokksmaður hans Hjálmar Hallgrímsson sagði „alla vilja halda kvóta, skipum og störfum í byggð.“ Málið ætti sér „hörmungarsögu“, í því hefðu verið gerð „mýmörg mistök“ og því væri „lítilmannlegt að draga einhvern til ábyrgðar.“

„Við höfum ekkert mál lengur í höndunum“

„Við hefðum öll viljað halda þessum afla í bæjarfélaginu,“ sagði Kristín María Birgisdóttir, oddviti Grindavíkurlistans. „Við erum hundfúl yfir að kaupin hafi verið dregin til baka og engin vitneskja um að þau væru komin á aftur. Við vorum sniðgengin, við vorum ekki upplýst. Báturinn er farinn og aflaheimildirnar líka. Við höfum ekkert mál lengur í höndunum.“

Hún sakaði Pál Jóhann um að vera vanhæfan í málinu en hann á 5% hlut í Vísi, sem áður rak meðal annars fiskverkun á Djúpavogi. Því hafnaði Páll Jóhann. „Ég er bara að hugsa um hag bæjarins. Er ég einn um að telja að það séu ríkir hagsmunir bæjarfélagsins að halda þessum kvóta og störfum?“

Í bókun meirihlutans frá fundinum í gær segir að ekki sé skynsamlegt að reyna að leita forkaupsréttarins ef ekkert útgerðarfyrirtæki í bænum geti gengið inn í kaupin. Því virðist þá lokið því í gær voru sléttar fjórar vikur liðnar síðan endanlegur kaupsamningur var virtust. Jafnvel þótt deilur væru um hvort forkaupsrétturinn miðaðist við sölutilboðið í lok nóvember eða endanlegan kaupsamning í lok janúar er allt svigrúm til svara bæjarins liðið og vart hróflað við Sandfelli SU 75 úr því sem komið er.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Vísismenn brjálaðir yfir því að missa kvóta úr bænum, það er Grindavík. Sömu menn hreinsuðu nánast upp kvótann á Húsavík án þess að missa bros. Miklir menn.

Deila á