Ofbeldi er ekki einkamál! Ofbeldi er vinnuverndarmál

Alþýðusambandið fagnar því að á fundi stjórnar Alþjóðlegu vinnumálastofnunarinnar ILO sem fram fór í Genf dagana 2. – 12. nóvember s.l. var ákveðið að á dagskrá Alþjóðlega vinnumálaþingsins ILC árið 2018 verði fjallað um ofbeldi gegn konum og körlum á vinnustöðum. Markmiðið er að settar verði alþjóðlegar reglur um hvernig barist verði gegn hvers konar ofbeldi og áreiti á vinnustöðum þ.m.t. kynferðislegt ofbeldi gegn konum og körlum.

ITUC – Alþjóðlegu verkalýðssamtökin hafa markvisst unnið að því að málið verði tekið fyrir á þingi ILO í nánu samstarfi við alþjóðleg kvennasamtök sem láta sig málið varða. Ofbeldi er ekki einkamál, ofbeldi er vinnuverndarmál. Ofbeldi í nánum samböndum og á vinnustöðum er vandamál sem hefur of lengi verið við lýði og sannarlega tímabært að alþjóðleg samtök eins og Alþjóðlega vinnumálastofnunin sjái til þess að alþjóðlegar reglur verði settar sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld geti beitt í baráttunni við að útrýma kynbundnu ofbeldi.

Stéttarfélögin, ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins, geta gegnt stóru hlutverki í skipulegri fræðslu trúnaðarmanna og starfsmanna og vakið til vitundar um vandann og hvaða áhrif ofbeldi í hvers konar mynd getur haft á þann sem ofbeldi er beittur og ekki síður á vinnustaðinn sem heild. Mikilvægt er að vinnustaðir bregðist við og geri skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum.

Ný reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum var birt 4. nóvember 2015 og féll þá úr gildi reglugerð nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti. Í nýju reglugerðinni er ekki eingöngu tekið á einelti, einnig er tekið á kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í reglugerðinni eru skýrar leiðbeiningar um hvernig stjórnendum vinnustaða beri að setja fram skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Þó svo að ábyrgð stjórnenda sé mikil þá má ekki gleyma að starfsmennirnir bera einnig ábyrgð á að vinnustaðurinn sé öruggur og heilbrigður fyrir alla.

Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttis- og umhverfismálum.

Deila á