Til hamingju Flugfélagið Ernir!!

Flugfélagið Ernir fær til landssins í dag, föstudag, nýja flugvél. Um er að ræða Jetstream 32, 19 farþega skrúfuþotu, en fyrir á félagið þrjár slíkar vélar ásamt minni flugvélum. Nýja flugvélin er keypt frá Red Star í Tyrklandi og mun áhöfn frá Flugfélaginu Erni fljúga vélinni til Reykjavíkur.

Þessi viðbót við flugvélaflota félagsins er kærkomin því mikil aukning hefur átt sér stað í farþegaflutningum í áætlunarfluginu og hefur leiguflugum einnig farið fjölgandi. Til að mynda hefur aukning á flugferðum til Húsavíkur, vegna stóriðjuframkvæmda og ferðamannastraums, aukist um 40% milli ára og til Vestmannaeyja um 30%. Áætla má að enn fleiri ferðum til þessara áfangastaða verði bætt við á nýju ári til að anna þeirri eftirspurn sem er að myndast. Á aðra áfangastaði hefur farþegum einnig fjölgað töluvert og er útlitið mjög gott bæði hvað innlenda og erlenda farþega varðar.

Kaup á nýrri flugvél er því ekki hvað síst vegna mikils uppgangs á flugleiðum félagsins en Flugfélagið Ernir flýgur til fimm áfangastaða innanlands, Húsavíkur, Vestmannaeyja, Hafnar í Hornafirði, Bíldudals og Gjögurs. Einnig sinnir félagið ýmsum leiguverkefnum bæði innanlands sem utan ásamt því að annast sjúkraflug milli landa og hafa þau verkefni verið að aukast jafnt og þétt.

Stéttarfélögin óska Flugfélaginu Erni til hamingju með nýju flugvélina. Stéttarfélögin hafa tekið þátt í því að byggja upp flugleiðina til Húsavíkur með góðum árangri. Í því sambandi má geta þess að farþegafjöldinn jókst um 40% milli ára.

Deila á