Allt á uppleið á Húsavík

Mesta atvinnuuppbygging í sögu Norðurlands var innsigluð í gær þegar tilkynnt var að fyrirvörum í samningum um kísilver á Bakka hefði verið aflétt. Þetta þýðir að áttatíu milljarða króna framkvæmdir í Þingeyjarsýslum fara núna á fullt.

Fyrstu framkvæmdir á Bakka hófust raunar fyrir mánuði á ábyrgð PCC en það var þó ekki fyrr en í gær sem bæði Norðurþing og Landsvirkjun tilkynntu að þýska félagið hefði aflétt öllum fyrirvörum. Þetta þýðir að bindandi samningar liggja nú fyrir um kísilverið.

Áætlað er að smíði þess kosti um 40 milljarða króna en því til viðbótar verður ráðist í aðrar eins fjárfestingar í orkumannvirkjum og innviðum. Þar vega þyngst Þeistareykjavirkjun og flutningslínur þaðan til Húsavíkur. Framkvæmdirnar kalla á allt að 700 manns í vinnu, þegar mest verður, en áformað er að fyrsti áfangi kísilversins hefji rekstur í nóvember 2017. Starfsmannafjöldi verður um 120 manns.

Þetta verður stærsta einstaka atvinnuuppbygging í sögu Norðurlands og raunar mestu framkvæmdir á landsbyggðinni, utan suðvesturhornsins, frá því smíði Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa lauk á Austurlandi. (byggir á frétt á visi.is)

Framundan eru spennandi tímar á Húsavík nú þegar ákveðið hefur verið að virkja á Þeistareykjum auk þess sem PCC ætlar að byggja kísilmálmverksmiðju á Bakka.

Deila á