Reiði og gleði á aðalfundi Framsýnar

Aðalfundur Framsýnar fór fram þriðjudaginn 19. maí. Fundurinn var vel sóttur og gekk vel fyrir sig. Mörg mál voru á dagskrá fundarins auk þess sem gögn úr rekstri félagsins voru lögð fram. Ánægja kom fram á fundinum með starfsemi og rekstur félagsins sem er einn sá besti innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og sáu fundarmenn ástæðu til að klappa fyrir góðum árangri félagsins. Kröftugar umræður urðu um kjaramál þar sem hörð gagnrýni kom fram á Samtök atvinnulífsins fyrir skilningsleysi á kröfum aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Boðuð verkföll væru á þeirra ábyrgð. Hér má sjá áhugaverðar upplýsingar sem fram komu á fundinum:

Greiðandi félagar:
Alls greiddu 2.378 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2014 en greiðandi félagar voru 2.265 árið 2013. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði því milli ára um 113 eða um 5%.

Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2014 eftir röð:
GPG Seafood ehf.
Norðurþing
Norðlenska matborðið ehf.
Brim hf.
Ríkissjóður Íslands
Þingeyjarsveit
Hvammur, heimili aldraðra

GPG-Fiskverkun greiddi mest allra sveitarfélaga/stofnana og fyrirtækja í iðgjöld til Framsýnar eða samtals kr. 9,9 milljónir árið 2014. Þar á eftir kemur sveitarfélagið Norðurþing með 9 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og iðgjöld fyrirtækja/sveitarfélaga/stofnana í sjóði Framsýnar.

Samþykkt að efla Vinnudeilusjóð félagsins:
Aðalfundurinn samþykkti að heimila stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins að færa allt að kr. 100.000.000 úr Félagssjóði í Vinnudeilusjóð verði þörf á því í yfirstandandi kjaradeilum við Samtök atvinnulífsins og aðra þá samningsaðila sem Framsýn er með kjarasamninga við og lausir eru árið 2015. Fyrir er í sjóðnum kr. 160.000.000 sem notaðar verða komi til allsherjarverkfalls 6. júní.

Fjárhagsleg afkoma félagsins góð:
Rekstrarafgangur var á flestum sjóðum félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 8% milli rekstrarára. Rekstrarútgjöld félagsins hækkuðu einnig milli ára.

Rekstrartekjur félagsins námu kr. 156.727.212,- sem er aukning um 9% milli ára. Rekstrargjöld námu 124.081.445,- sem er aukning um 7% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna viðgerða og endurbóta á skrifstofu stéttarfélaganna við Garðarsbraut 26 á Húsavík. Fjármagnstekjur námu kr. 38.694.631,-. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 124.077.077,- á móti kr. 115.193.347,- á árinu 2013. Í árslok 2014 var tekjuafgangur félagsins kr. 65.635.375,-.  Heildareignir félagsins námu kr. 1.545.510.950,- í árslok 2014 samanborið við kr. 1.482.592.787,- í árslok 2013. Staða félagsins er ein sú besta sem þekkist innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands.

30 milljónir greiddar í bætur og styrki:
Á árinu 2014 nutu 904 félagsmenn bóta úr sjúkrasjóði félagsins en voru 519 árið 2013. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 30.197.469,-.

122 milljónir greiddar í atvinnuleysisbætur:
Félagsmenn fengu greiddar kr. 122.986.578,- í atvinnuleysisbætur og mótframlög frá Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2014. Greiðslurnar hækkuðu töluvert milli ára en upphæðin var kr. 114.240.283,- árið 2013.

14 milljónir greiddar í starfsmennastyrki:
Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2014 fengu 311 félagsmenn greiddar 12.439.189,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur sem Framsýn á aðild að vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2013 var kr. 10.036.496. Að auki fengu 40 félagsmenn sérstaka styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 1.544.447,-.

Ódýrir flugmiðar, besta kjarabótin á árinu:
Framsýn festi kaup á 3700 flugmiðum af Flugfélaginu Erni á árinu 2014 fyrir um kr. 28 milljónir. Varlega áætlað spöruðu félagsmenn sér um 29 milljónir við kaup á flugmiðum í gegnum Framsýn.

Heitar umræður um kjaramál:
Á aðalfundinum urðu heitar umræður um kjaramál og hörð gagnrýni kom fram á málflutning Samtaka atvinnulífsins. Fundarmenn voru almennt mjög ánægðir með framgöngu félagsins að semja við atvinnurekendur í heimabyggð um kr. 300.000 króna lágmarkslaun en gengið hefur verið frá 23 þremur slíkum kjarasamningum á vegum félagsins. Fundurinn samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

„Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 19. maí 2015 lýsir yfir fullri ábyrgð á hendur Samtökum atvinnulífsins nú þegar stefnir í allsherjarverkfall aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands 6. júní. Það er að loknu tveggja daga verkfalli sem boðað hefur verið til 28. og 29. maí.

Það er með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins vilji viðhalda fátækt í landinu með kauptöxtum sem eru langt fyrir neðan viðurkennd opinber framfærsluviðmið. Samtökin hafa gengið afar langt í áróðri gegn hækkun lægstu launa upp í kr. 300.000 innan þriggja ára og fullyrða að slík hækkun muni valda óðaverðbólgu og efnahagslegu hruni. Samtök atvinnulífsins hafa verið klöppuð upp af Seðlabankanum sem er sömu skoðunar og samtökin. Þessi málflutningur hefur ekki verið hávær þegar samið hefur verið við tekjuhæstu hópana um siðlausar launahækkanir í umboði Samtaka atvinnulífsins.

Aðalfundurinn hafnar alfarið þessum staðhæfingum Samtaka atvinnulífsins og hvetur þá til þess að stiga fram í nútímann með því að ganga að kröfum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem Framsýn á aðild að. Þá krefst aðalfundurinn þess að verkalýðshreyfingin hniki ekki frá kröfunni um 300.000 króna lágmarkslaun og hafnar alfarið hugmyndum SA um % hækkanir sem auka alltaf ójöfnuðinn.

Það er algjör misskilningur að verðmætir lykilstarfsmenn leynist eingöngu í ákveðnum stjórnunarstöfum í atvinnulífinu og það kalli sjálfkrafa á ofurlaun og kaupaukagreiðslur til þessara manna. Að mati aðalfundarins eru verðmætustu starfsmennirnir þeir sem snúa hjólum atvinnulífsins alla daga ársins. Þessir starfsmenn hafa ekki verið metnir að verðleikum og skrapa botninn þegar kemur að launakjörum í þessu landi. Þeir gera líka tilkall til þess að verða metnir að verðleikum.

Að lokum fagnar aðalfundurinn þeim árangri sem Framsýn hefur náð í kjarasamningum við á þriðja tug fyrirtækja á félagssvæðinu sem skrifað hafa upp á 300.000 króna lágmarkslaun. Fyrirtæki sem bera virðingu fyrir sínum starfsmönnum og hafna láglaunastefnu Samtaka atvinnulífsins. Heyr fyrir þeim!“

Góð stemning var á aðalfundi Framsýnar í gær.

Gengið frá ályktun  um kjaramál á fundinum. Nokkrar breytingatillögur komu fram við drög að ályktun sem lág fyrir fundinum. Hér eru nokkrir fundarmenn með fundarstjóra fundarins, Ósk Helgadóttur, að koma sínum skoðunum á framfæri við drögin. Eftir að allir höfðu komið sínum skoðunum á framfæri var ályktunin samþykkt samhljóða.

Huld Aðalbjarnardóttir fjármála- og skrifstofustjóri Framsýnar fór yfir ársreikninga félagsins. Rekstur félagsins gekk mjög vel á síðasta starfsári.

Gleði og hamingja, fundarmenn voru ánægðir með starfsemi félagsins og klöppuðu enda full ástæða til þess þar sem Framsýn er eitt öflugasta stéttarfélag landsins.

Fundarmenn fengu glaðning frá félaginu, vandaða tösku.

Harðar umræður urðu um kjaramál á aðalfundinum. Hér má sjá nálgun Samtaka atvinnulífsins. Það er að samið verði um % hækkanir sem gagnast best þeim sem hafa hæstu launin. Samkvæmt þeirra tillögum eiga félagsmenn Starfsgreinasambandsins að fá um 30.000 króna hækkun í þriggja ára samningi meðan stjórnendur Samtaka atvinnulífsins sem hafa um 3 milljónir á mánuði fá rúmlega 400.000 í hækkun. Þetta kalla Samtök avinnulífsins Íslandsmet í hækkun til þeirra lægst launuðu. Dæmi hver fyrir sig, væntanlega á þetta Íslandsmet við um hækkanir til þeirra sjálfra enda berjast þeir gegn tillögum Starfsgreinasambandsins um krónutöluhækkanir sem kemur persónulega illa út fyrir þá.

Fólk kom víða að á fundinn. Hér má sjá mæðgurnar úr Baldursheimi í Mývatnssveit.

Staðan tekin, Jakob, María og Kristbjörg fengu sér kaffi og kleinur sem voru í boði á fundinum.


Eysteinn Heiðar Kristjánsson var greinilega hissa yfir þessu öllu saman eða bara ánægður með breytingatillögur sem hann lagði til á kjaramálaályktuninni. Hver veit?

Deila á