Viðræðum slitið- aðgerðir undirbúnar

Þann 10. mars lýsti Samninganefnd Starfsgreinasambandsins yfir árangurslausum viðræðum við Samtök atvinnulífsins en reynt hefur verið að ná endurnýjun kjarasamninga í nokkra mánuði án árangurs. Kröfur SGS eru skýrar: Að lægstu laun verði komin upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára svo launafólk hafi möguleika til að lifa af dagvinnulaunum. Það eru mikil vonbrigði að Samtök atvinnulífsins voru ekki tilbúin til að koma til móts við þessar kröfur. Starfsgreinasambandið er því nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar.

Þau átök á vinnumarkaði sem þetta hefur í för með sér er afleiðing annars vegar skilningsleysis Samtaka atvinnulífsins á þeim launum sem fólk þarf til að lifa af og hins vegar stjórnvalda sem brugðust algerlega í þeirri tilraun sem gerð var fyrir rúmu ári síðan með hóflegar launahækkanir og aukinn kaupmátt. Til þess að sú tilraun gengi upp þurftu allir að taka þátt en svo er einfaldlega ekki.

Samstaða innan samninganefndar Starfsgreinasambandsins er fullkomin og viðræðurslit voru samþykkt einróma af öllum fulltrúum þeirra 16 aðildarfélaga sem SGS fer með samningsumboð fyrir en þau eru: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Deila á