Viðtal: Verkafólk á inni hlutdeild í góðærinu

„Einstakir fiskverkendur sýna kröfum okkar meiri og betri skilning í orði og verki en Samtök atvinnulífsins, sem draga einungis upp staðlaða og fyrirséða mynd af óðaverðbólgu og efnahagsþrengingum ef hækka eigi lægstu laun umtalsvert. Já, það er beinlínis sóknarfæri í sjávarútvegi að hækka laun landverkafólks verulega og fyrir því er innistæða í atvinnugreininni,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags. Hann var sviðsstjóri þáverandi matvælasviðs Starfsgreinasambandsins, sem fiskvinnslufólk heyrði undir, og hefur lengi látið sig kjaramál þess varða sérstaklega.

Starfsgreinasambandið birti atvinnurekendum kjarakröfur sínar núna í janúar og setur sem markmið að lágmarkslaun verði nái 300 þúsund krónum á mánuði í kjarasamningi til þriggja ára. Samtök atvinnulífsins svöruðu því til að bragði að slíkt væri ekki einu sinni umræðuefni, hvað þá samningsgrundvöllur.

„Það er og hefur verið góðæri í sjávarútvegi sem byggist á háu afurðaverði og hagstæðu gengi en líka á lágum launum í fiskvinnslu. Afkomutölur sjávarútvegsfyrirtækja sýna að þau geta og eiga að veita verkafólki hlutdeild í góðærinu og gera það jafnvel sum að eigin frumkvæði. Samherji borgaði til dæmis landverkafólkinu sínu í fullu starfi allt að hálfri milljón króna í launauppbót árið 2014.

Dæmi eru líka um önnur sjávarútvegsfyrirtæki sem yfirborga, það er að segja greiða meira en lágmarkstaxta og bónus. Einn fiskverkandi sagði við mig að vandinn væri bara sá að fyrirtækin væru undir hæl Samtaka atvinnulífsins og kæmust ekki upp með að borga eins og þau gætu og vildu.“

Aðalsteinn bætir því við að vissulega sé afkoma sjávarútvegsfyrirtækja misjöfn en slakt gengi sumra þeirra megi frekar skýra með „offjárfestingum og ruglfjárfestingum“ en því að kaup verkafólks hafi sligað þau.

„Ég vil nefna líka fjárfestingar í nýjum vinnslulínum sem hafa skilað fyrirtækjum ágóða en ekki endilega verkafólki. Mun meira fer af fiski í gegnum fiskvinnsluhúsin eftir slíkar breytingar án þess að bónusgreiðslur hækki að sama skapi. Vinnan er einhæfari en áður og vart verður álagseinkenna, því miður.

Lægstu taxtalaun í fiskvinnslu eru 207 þúsund krónur á mánuði, að frátöldum bónusgreiðslum. Það sér hver maður að þjóðfélagið leggst ekki á hliðina við að hækka grunnkaup þessa fólks í 300 þúsund á þremur árum. Því meira sem Samtök atvinnulífsins hamast gegn okkar og þessum kröfum þeim meira þjappa þau verkafólki saman um að ná kröfunum í höfn í kjarasamningum.“

(Þetta viðtal sem Atli Rúnar Halldórsson blaðamaður  tók við formann Framsýnar er í fylgiblaði með Morgunblaðinu í dag)

Aðalsteinn starfaði lengi í fiskvinnslu, hér er hann ásamt nokkrum vinnufélögum sem störfuðu með honum hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur. Það er áður en hann hóf störf hjá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum. Aðalsteinn er annar frá vinstri.

Deila á