… er sælt að vera fátækur elsku Dísa mín.

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar skrifar þessa mögnuðu grein inn á heimasíðu stéttarfélaganna í dag. Greinin fjallar um misskiptinguna í þjóðfélaginu sem er þörf umræða nú þegar stéttarfélög verkafólks eru að ganga frá kröfugerð félaganna á hendur atvinnurekendum.

Fátækt á Íslandi er vinsælt umræðuefni á þessum árstíma, en sú umræða vaknar ævinlega í aðdraganda jólanna, rétt eins og jólasveinarnir fer hún að gera vart við sig er líða fer á aðventuna. Það er eitthvað við þessa jólafátæktarumræðu sem fer í taugarnar á mér, kannski af því að ég veit að fátæka fólkið er ekki bara fátækt fyrir jólin heldur er það ástand sem varir allt árið um kring. Stundum er staðan erfið ár eftir ár, jafnvel kynslóð eftir kynslóð og það er vitað að því lengur sem fátæktin varir því erfiðara er fyrir fólk að brjótast út úr henni, börn verða oft fátækir fullorðnir og fátækt aldrað fólk. Það er líka vitað að langvarandi fátækt er eyðileggjandi. Bræðurnir þunglyndi, vonleysi og kvíði eru vísir gestir fátæktar sem enginn vill þó bjóða heim, þeir fylgja oft með,setjast upp og ræna fólk mannlegri reisn. Það er sælla að gefa en þiggja og víst er það göfug hugsun hjá þeim sem eiga nóg fyrir sig að gauka einhverju lítilræði að þessu vesalings fátæka fólki en það breytir ekki stöðunni svo mikið, fólkið heldur áfram að berjast í bökkum þó að jólin líði hjá og er fast í heljargreipum fátæktarinnar. Sístækkandi hópur hér á landi býr við fátækt, nokkuð sem er skammarlegt hjá þjóð sem telur sig vera eina af þeim ríkustu í heimi.

Ég hugsa til gamalla daga, ég hafði verið send í búðina að skila poka af skemmdum kartöflum, lítil stelpuskjáta, viljug til verka, kannski 8 eða 9 ára gömul. Ég skottaðist glaðbeitt inn í búðina, upp með mér af ábyrgðinni sem á mig var lögð, lagði pokann á búðarborðið og lét fylgja með skilaboð frá móður minni: „Mamma bað mig að skila þessum kartöflum og fá nýjar, þessar eru skemmdar.“ Afgreiðslumaðurinn tók pokann, mælti ekki orð af vörum fyrr en hann slengdi öðrum poka upp á borðið, þá hreytti hann út úr sér: „Þegar svona afdalapakk er nú að rífa kjaft“. Undrandi og sár yfir þessum viðbrögðum mannsins tók ég við kartöflunum, vissi innst inni að þau hefðu að hans mati eitthvað með stöðu foreldra minna í samfélaginu að gera og vissi líka að það myndi vera óþarfi að skila þessum orðum heim. Ég barðist við kökkinn sem settist að í hálsinum og hélt heim á leið með pokann sem nú var orðinn mun þyngri. Hann innihélt ekki lengur eingöngu kartöflur, orðin sigu í og lítil tár laumuðust niður kinnarnar og blönduðust innihaldi pokans sem skilað var heim án athugasemda. Nú rúmum 40 árum síðar velti ég þessu atviki fyrir mér og finnst að það sé kominn tími til að koma af mér þessari orðsendingu. Það er orðið dálítið seint að skila henni heim en það er hægt að láta hana flakka hér. Ég veit að við vorum ekki fátæk í þeim skilningi, við bjuggum við svipuð kjör og bæði þessi maður og annað alþýðufólk þess tíma, en þessi orð hans greyptust í huga minn, komu inn leiðindatilfinningu sem leituðu stundum á huga lítillar stelpu þegar á móti blés. Ég geri mér grein fyrir því í dag sem fullorðin manneskja að orðin sögðu meira um hugarfar þessa manns en stöðu minnar fjölskyldu.

Ég tilheyri þessu afdalapakki enn í dag, rétt eins og annað láglaunafólk á Íslandi. Við erum stétt fólks sem eins og í orðunum liggur vinnur fyrir lágum launum, margir komast af en það má lítið útaf bera svo skapist ekki vandræði og fjárhagurinn fari á annan endann. Það er samt svo að afdalapakkið þarf að lifa og morgunljóst að launin okkar þurfa að hækka rétt eins og annarra hópa í þjóðfélaginu. Sultarólin hefur verið hert í botn. Stöðugleikinn getur ekki endalaust verið í boði tekjulægstu hópanna í þjóðfélaginu og það gengur ekki að lágmarkslaun séu langt undir tölum um lágmarksneysluviðmið. Það er undarlegt ef það er virkilega þannig að hagkerfið kólni bara með aðkomu þeirra sem minna mega sín, það hljóta allir að þurfa að koma að þeirri aðgerð.

Það hafa verið gerðar úttektir á vandamálinu, árið 2012 kom t.d. út skýrsla Rauða krossins í Reykjavík og Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem bent var á mikilvægi þess að viðurkenna lágmarksframfærslu í landinu. „Gert verði samkomulag um skilgreind grunnfærsluviðmið sem tryggir að enginn einstaklingur eða fjölskylda búi við slíkan skort að varanlegur skaði hljótist af,“segir í skýrslunni. Nýlegar tölur frá Rauða krossinum segja einnig að 9% þjóðarinnar sé fátæk og 13% séu við fátækramörk. Það er eitthvað að í okkar ágæta landi, við eigum öll að geta lifað hér sómasamlegu lífi. Það ætti enginn að þurfa að standa í biðröð hjálparsamtaka og þær ættu með réttu ekki að þurfa að vera til á Íslandi. Fólk á ekki að þurfa að svelta sig til að geta gefið börnunum sínum að borða og forstjórar fyrirtækja ættu ekki að vera með milljónir á mánuði á meðan fólkið á gólfinu lepur dauðann úr skel. Fátækt er nefnilega ekki náttúrulögmál, heldur er henni viðhaldið með misskiptingu og óráðssíu hjá ríkri þjóð sem á að geta boðið öllum þegnum sínum mannsæmandi lífskjör.

Fátækt á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár, í dag eru um 4500 börn á íslenskum heimilum sem leita reglulega eftir mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands og sú tala hækkar í aðdraganda jóla. Það er ekki meining mín að gera lítið úr öllum þeim hjálparstofnunum sem starfa hér á landi, þar er unnið frábært starf og í alla staði ómetanlegt, fyrir þeirra tilstilli ná margar fjölskyldur að gera jólin bærilegri. Þar leggjast allir á eitt að hjálpa þeim sem minna mega sín og svo mikið veit ég að hugur þess fólks sem setur í pokana hjá þeim sem á þurfa að halda er betri en hjá manninum sem skipti út kartöflupokanum fyrir móður mína forðum. Án þessarra hjálparstofnanna væri hátíðin heldur snautleg hjá fjölda fólks en það breytir því samt ekki að þeir sem standa í þeim sporum að vera þiggjendur hjá góðgerðasamtökum bera ekki bara matinn í pokanum heim, þeir bera líka með sér skömmina yfir stöðu sinni. Þeir sem leita eftir aðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands eru öryrkjar, atvinnulausir, innflytjendur, einstæðar mæður og feður, eldri borgarar, lágtekjufólk og einstæðingar. Fólk sem býr við aðstæður sem þessar á það sameiginlegt að þurfa aðstoð við að reyna að ná endum saman um hver mánaðarmót og börn þeirra fara mörg á mis við hluti sem teljast sjálfsagðir í okkar samfélagi í dag. Þar nefni ég m.a. íþróttir, tónlistarnám og annað uppbyggilegt frístundastarf sem öll börn, óháð efnahag foreldra, ættu að hafa aðgang að.

Hjálparstofnanir útrýma ekki fátækt, en viðhorfsbreyting gæti hins vegar hjálpað til þess. Íslenskt samfélag má ekki lengur skorast undan því að horfast í augu við aukinn ójöfnuð, það þarf að viðurkenna vandann, útrýma fátækt og tryggja að allir þegnar þessa lands geti lifað með reisn.

Ég leyfi mér að lokum að vitna í orð okkar ágæta forsætisráðherra: „Ísland hefur ekki verið stéttskipt á sama hátt og mörg önnur lönd og það er einn af mörgum góðum kostum þess að byggja þetta land…“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í hjartnæmri þjóðhátíðarræðu á Austurvelli.

Missti hann af einhverju?

Áfram Ísland

Ósk Helgadóttir skólaliði og varaformaður
Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga

Ósk Helgadóttir hefur áður vakið athygli fyrir skrif um verkalýðsmál. Þessi grein hittir í mark og er vel skrifuð af starfsmanni sem starfar sem skólaliði í Stórutjarnarskóla auk þess að gegna varaformennsku í Framsýn.

Deila á