Ályktun um Húsavíkurflugvöll

Stjórn Framsýnar hefur ákveðið að senda frá sér ályktun um mikilvægi Húsavíkurflugvallar en verulega hefur skort á að flugmálayfirvöld setji nægjanlegt fjármagn í viðhald og rekstur flugvallarins. Framsýn hefur áhyggjur af því enda flugvöllurinn mikilvægur öllum þeim sem leið eiga um völlinn og ekki síst fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Sjá ályktun:

Framsýn, stéttarfélag fagnar þeirri þróun sem orðið hefur í farþegaflugi um Húsavíkurflugvöll frá árinu 2012 þegar Flugfélagið Ernir hóf reglulegt áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur.

Árið 2012 fóru rúmlega sex þúsund manns um Húsavíkurflugvöll, árið 2013 fóru tæplega tíu þúsund manns um völlinn. Árið 2014 er áætlað að farþegafjöldi verði yfir ellefu þúsund farþegar.

Ljóst er að samkomulag Framsýnar við Flugfélagið Erni um sérstök vildarkjör fyrir félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og aukinn ferðamannastraumur inn á svæðið vega þungt í þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á flugumferð um Húsavíkurflugvöll.

Í ljósi þessa er afar mikilvægt að flugmálayfirvöld geri allt til þess að auka öryggi flugvallarins með viðurkenndum ljósabúnaði, viðhaldi á flugbraut og annarri aðstöðu á vellinum. Þannig verður flug um Húsavíkurflugvöll best tryggt samfélaginu til hagsbóta.“

Deila á