Vinnumálastofnun lokar á Húsavík

-Skerðing á þjónustu, fækkun opinberra starfa og enginn sparnaður-

Í auglýsingu frá Vinnumálastofnun í auglýsingablaðinu Skránni á Húsavík í dag, kemur fram að Vinnumálastofnun hyggist loka þjónustuskrifstofu sinni á Húsavík. Þar með lýkur áratuga samfelldri góðri þjónustu við atvinnuleitendur á Húsavík og Þingeyjarsýslum. Með þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda skerðist enn opinber þjónusta á svæðinu, störfum opinberra starfsmanna fækkar enn frekar og nánast enginn sparnaður verður af þessari lokun.

Í auglýsingunni er ekki að sjá að atvinnuleitendur á svæðinu verði þjónustaðir með reglubundnum hætti, öðrum en þeim að gefið er upp landssímanúmer Vinnumálastofnunar. Á liðnum árum hefur skráningaþjónusta við atvinnuleitendur færst inn á vef stofnunarinnar og munu Húsvíkingar og Þingeyingar hafa þann einn kost að nota þá þjónustugátt, ef þeir óska þjónustu í atvinnuleysi og sækja um atvinnuleysisbætur. Athygli vekur að stofnunin telji þessa þjónustugátt fullnægjandi á landsbyggðinni, á meðan atvinnuleitendur í stærra þéttbýli geta gengið að persónulegri þjónustu Vinnumálastofnunar á þjónustuskrifstofum þar.

Framsýn stéttarfélag óttast að fjöldi einstaklinga munu fá litla sem enga þjónustu frá Vinnumálastofnun og tapa í einhverju mæli réttindum til atvinnuleysisbóta, vegna þessarar skerðingar á þjónustu. Hætta er á að eldri og yngstu atvinnuleitendurnir og íbúar af erlendum uppruna verði sérstakalega fyrir barðinu á þessu.

Með lokun þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Húsavík fækkar opinberum störfum á vegum Ríkisins um eitt. Þetta starf bætist í fjölda annarra opinberra starfa sem tapast hafa á undanförum árum. Samkvæmt upplýsingum liggur ekkert annað fyrir hjá fráfarandi starfsmanni Vinnumálastofnunar en að skrá sig atvinnulausan og fá þannig atvinnuleysisbætur frá stofnuninni, sem eru nánast jafngildi þeirra launa sem hann hefur fengið.

Framsýn hefur ítrekað mótmælt þessum og svipuðum ákvörðunum stjórnvalda á svæðinu og fordæmt þessa stefnumörkun stjórnvalda. Þá undrast Framsýn framtaksleysi þingmanna svæðisins, sérstaklega stjórnarþingmanna sem höfðu ekki fyrir því að svara erindi félagsins um viðhorf þeirra til lokunarinnar á Húsavík.

Vinnumálastofnun stendur ekki lengur undir nafni. Sker niður þjónustu við atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum. Spurt er, hver er framtíð þessarar líflausu stofnunnar

Deila á