Ríkisstyrktur sjávarútvegur

Á árinu 2011 greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður 348,5 m.kr. til fiskvinnufyrirtækja vegna hráefnisskorts. Sambærileg tala fyrir árið 2012 er 409,6 m.kr. og á árinu 2013 voru greiddar 248,2 m.kr. til fiskvinnslufyrirtækja. Á fjárlögum 2013 var gert ráð fyrir 190 m.kr. til þessa liðar og á fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir 140 m.kr.  Samkvæmt upplýsingum frá Atvinnuleysistryggingasjóði var búið að greiða 89 m.kr í júní sl. til fiskvinnslufyrirtækja. Það voru því aðeins eftir 51 m.kr. af fjárveitingu ársins í byrjun sumars. Greiðslur vegna hráefnisskorts hafa farið töluvert fram úr fjárlögum undanfarin ár þrátt fyrir að reglur hafi verið þrengdar.
Til skýringa má nefna að fiskvinnslufyrirtæki sem sjá fram á tímabundin hráefnisskort geta samkvæmt gildandi reglum og lögum  óskað eftir endurgreiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði á hluta launa starfsmanna komi til þess að þau þurfi að senda fólk tímabundið heim vegna hráefnisskorts. Því miður eru dæmi um að fyrirtæki hafa misnotað þessa reglu og komið launagreiðslum yfir á ríkið, það er Atvinnuleysistryggingasjóð.  Það er afar athyglisvert að þessar reglur gildi aðeins fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi en ekki í öðrum atvinnugreinum. Hér er um að ræða beinan ríkisstyrk til sjávarútvegsfyrirtækja sem flest hafa malað gull á síðustu árum. Samt sem áður hefur ríkið hjálpað þeim að greiða laun starfsmanna svo nemur hundruðum milljóna á síðustu árum eins og fyrirliggjandi upplýsingar frá Atvinnuleysistryggingasjóði sýna. Verkalýðshreyfingin kallar eftir sama starfsöryggi fyrir fiskvinnslufólk og annað verkafólk.
Framsýn á nú í málaferlum í gegnum Starfsgreinasamband Íslands gegn fiskvinnslufyrirtækinu Vísi hf.   Málið er að Vísir sem lokaði starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík með mánaðar fyrirvara neitaði að verða við kröfu Framsýnar um að greiða starfsmönnum kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest og beindi starfsmönnum þess í stað inn á atvinnuleysisbætur.  Félagsdómur mun taka málið fyrir í haust og úrskurða hvað sé heimilt í þessu sambandi.
Deila á