Framsýn samdi í gær við sveitarfélögin

Framsýn gekk í gær frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Gildistíminn er frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015.  Samningurinn nær til 262 félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum á ársgrundvelli. Framsýn verður með kynningarfund um kjarasamninginn fimmtudaginn 17. júlí kl. 20:00 í fundarsal félagsins. Verði eftir því leitað verður boðið upp á fleiri kynningarfundi. Þá geta þeir sem búa utan Húsavíkur fengið kjörseðla senda til sín í pósti óski þeir eftir því. Atkvæðagreiðsla um samninginn er hafin á Skrifstofu stéttarfélaganna. Hægt verður að kjósa um samninginn til 21. júlí. Þar er einnig hægt að nálast kjarasamninginn, það er einnig hægt inn á heimasíðu félagsins www.framsyn.is.
Helstu atriði samningsins eru:
• Samningstíminn er eitt ár frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015.
• Laun starfsmanna hækka samkvæmt nýrri launa- og tengitöflu þann 1. maí 2014 og aftur 1. janúar 2015. Laun félagsmanna Framsýnar hækka á bilinu 5,58% upp í 10,61% á samningstímanum.
• Lágmarkslaun frá 1. maí 2014 verða kr. 229.549. Fyrir undirskriftina voru þau kr. 219.799.
• Desemberuppbótin á árinu 2014 verður kr. 93.500. Fyrir undirskriftina var hún kr. 80.700.
• Framlag í starfsmennasjóði starfsmanna er hækkað um 0,1%.
• Gerðar eru breytingar á reglum um  ráðningarsamninga starfsmönnum í hag.
• Gengið var fá ákvæði um að starfsmenn sem ljúka starfsnámi sem er meira en 70 framhaldsskólaeiningar verður metið til 4% persónuálags enda nýtist það í starfi og hefur ekki verið metið við röðun starfs í starfsmati.
Félagsmönnum Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum er velkomið að koma í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna til að fræðast um innihald samningsins.
Rétt er að taka fram að kjarasamningurinn nær einnig til félagsmanna í Verkalýðsfélagi Þórshafnar.
Gengið hefur verið frá kjarasamningi fyrir starfsmenn sveitarfélaga á félagssvæði Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar.
Deila á