Sjómenn hafa áhyggjur af þróun mála

Ljóst er að sjómenn innan Sjómannadeildar Framsýnar sem starfa á frystitogurum hafa áhyggjur af sinni stöðu. Frystitogurum hefur fækkað nokkuð, annað hvort hefur þeim verið lagt eða þeir seldir úr landi. Nýlega voru fréttir af sölu Brimnessins RE 27, sem er í eigu útgerðarfyrirtækisins Brims hf., til Grænlands. Brimnesið er einn af nýjustu og stærstu frystitogurum Íslendinga, smíðaður í Noregi árið 2003.  Um 40 sjómenn hafa starfað á togaranum og árið 2013 var aflaverðmæti skipsins 2.680 milljónir króna og laun og launatengd gjöld  voru 1.028 milljónir króna.   Útgerðarmenn sem jafnframt reka fiskvinnslur í landi hafa borið því við að hagstæðara sé orðið að vinna aflann í landi í stað þess að vinna hann út á sjó. Þá eru dæmi um að útgerðarmenn hafi kvartað undan veiðileyfagjaldinu sem komi illa við margar útgerðir og kippi fótunum undan rekstrargrundvelli frystitogara.

 

Margir sjómenn á frystitogurum eru eðlilega uggandi um hag sinn og starfsöryggi þar sem frystitogurum fer fækkandi á Íslandi, ekki síst á síðustu mánuðum. Útgerðarmenn tala um að veiðileyfagjaldið sé of hátt sem geri útgerðum frystitogara erfitt fyrir í rekstri. Töluvert er um að sjómenn á frystitogurum greiði félagsgjald til Framsýnar.

Deila á