Átakafundi lokið

Fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar var að ljúka. Hörð gagnrýni kom fram á fundinum með vinnubrögð formanns Starfsgreinasambands Íslands, Björns Snæbjörnssonar. Forsendan fyrir viðunandi kjarasamningi sé að félögin standi saman að gerð kjarasamnings. Í lok fundarins var svohljóðandi ályktun samþykkt samhljóða. 

„Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar fordæmir vinnubrögð formanns Starfsgreinasambands Íslands sem síðustu daga hefur unnið markvisst að því að splundra einingu aðildarfélaga sambandsins til sóknar í kjaramálum. Það er sorglegt að á sama tíma og opinberir starfsmenn standa fyrir glæsilegum baráttufundum til að efla samstöðuna skuli formaður Starfsgreinasambandsins telja tíma sínum best varið í að stía  aðildarfélögum sambandsins í sundur með ósmekklegum hætti. Full ástæða er fyrir verkafólk að hafa áhyggjur af væntanlegri niðurstöðu kjaraviðræðna Samtaka atvinnulífsins og þeirra stéttarfélaga sem nú hafa sameinast undir einum hatti þar sem sundruð verkalýðshreyfing nær aldrei árangri í kjarabaráttu.“

Það er ekki sama samstaðan hjá SGS og opinberum félögum eins og BHM sem héldu glæsilegan baráttufund fyrir helgina.

Mikil reiði var á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í dag. Um 30 félagsmenn sitja í stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins frá fjölmörgum vinnustöðum.

Deila á